Fréttasafn14. des. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Hvetja stjórnvöld til að framlengja Allir vinna

Fjárlagafrumvarpið núna gerir ekki ráð fyrir áframhaldi á þessu. Við auðvitað vissum að þetta var sett á tímabundið og átti að vera út þetta ár. Engu að síður voru umræðurnar miklar í aðdraganda kosninga um þetta úrræði og flokkarnir voru spurðir út í það hvort það væri vilji til að framlengja. Þetta segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í viðtali Gunnlaugs Helgasonar og Heimis Karlssonar í Bítinu á Bylgjunni þar sem rætt var um átakið Allir vinna ásamt Tinnu Andrésdóttur, lögfræðingi hjá Húseigendafélaginu. Þær hvetja báðar til þess að stjórnvöld framlengi Allir vinna út næsta ár hið minnsta.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur vildu framlengja átakið

Jóhanna Klara segir að langflestir flokkarnir hafi gefið það út að það væri vilji til þess að framlengja átakinu og þar á meðal hafi verið Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn. „Þannig að menn voru nú ansi bjartsýnir núna þegar ríkisstjórnin fór aftur af stað aftur. Vinstri-græn gáfu þetta ekki eins skýrt út en menn voru orðnir bjartsýnir.“

Gífurlega jákvæð áhrif á iðngreinina

Í viðtalinu kemur fram að átakið hafi upprunalega verið á árabilinu 2009 til 2013 en verið tekið af og svo sett á í heimsfaraldrinum. Jóhanna Klara segir að það hafi verið gert til að aðstoða fyrst og fremst einyrkjana og þessi litlu fyrirtæki sem eru á viðhaldsmarkaði til að geta haldið áfram. „Þetta var eitt af úrræðunum sem var kynnt til leiks. Þetta hefur haft gífurlega jákvæð áhrif á iðngreinina. Þessi iðngrein á það til að sveiflast mjög mikið í sögulegu samhengi og hrynur mjög hratt þegar eitthvað kemur upp á. Við erum að sjá það núna í fyrsta skipti í sögulegu samhengi að þessar aðgerðir sem beindust að byggingariðnaði eru að skila árangri og lendingin er þar af leiðandi mýkri.“ Hún segir að Allir vinna hafi haft jákvæð áhrif á fyrirtækin sem eru í viðhaldsiðnaði sem eru einyrkjar og lítil fyrirtæki. „Þessir aðilar þurfa enn þá þennan stuðning. Einyrkinn sem fer í sóttkví hann sendir ekki starfsmann. Þess vegna viljum við hvetja stjórnvöld til að styðja áfram með þetta út næsta ár hið minnsta.“

Ýta undir og aðstoða heimilin við að fara í og klára framkvæmdir

Þá kemur fram í viðtalinu að fjárlagafrumvarpið sé nú til umfjöllunar á Alþingi. Jóhanna Klara segir að margir hagaðilar séu búnir að senda inn umsögn og benda á þetta, þar á meðal Samtök iðnaðarins. „Við erum mjög bjartsýn á að ná árangri þar og þetta verði tekið til endurskoðunar. En það verður bara að koma í ljós.“ Þá segir Jóhanna Klara að fjárhagsstaða heimilanna hafi líka breyst á þessu tímabili. „Ef við skoðum næsta ár þá hefur greiðslubyrðin aukist. Þau hafa þar af leiðandi minna á milli handanna til að fara í þessar framkvæmdir og þar af leiðandi er svolítið skrýtið að framlengja þetta ekki til að ýta undir og aðstoða þessa aðila í húsfélögunum til að fara og klára framkvæmdir.“

Bjartsýn á að verði framlengt 

Einnig segir hún að átakið hafi verið útvíkkað frá því sem var þannig að átakið tekur líka til hönnunar og eftirlits á byggingarstað og í framkvæmdum. „Ég talaði við arkitekt í gær sem hefur gífurlegar áhyggjur af þessu.“ Hún segir það vera litla arkitektastofu og að það sé grein sem hafi orðið illa úti þegar eitthvað svona gerist. „Þessi aðili sagði að hann vissi ekki hvar hann hefði verið ef þetta átak hefði ekki komið til í fyrra. Frístundahúsnæði og það sem var farið af stað með hjálpaði greininni og allri virðiskeðjunni.“

Þegar þáttastjórnendurnir spyrja hvernig náð verði eyrum stjórnvalda segir Jóhanna Klara að núna sé beðið eftir að fá tíma hjá þingnefndinni þar sem svarað verði fyrir umsögn Samtaka iðnaðarins sem hefur verið skilað inn. „Það eru margir hagaðilar að benda á þetta þannig að við verðum að vera bjartsýn.“

Bylgjan, 14. desember 2021.