Fréttasafn27. nóv. 2019 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Í loftslagsmálum megum við ekki vera eyland í hugsun

Við höfum góða sögu að segja með orkuskiptum í raforkuframleiðslu sem og í húshitun með nýtingu jarðvarma. Þess vegna á Ísland að taka forystu í loftslagsmálum. Þetta er hnattrænt vandamál en sú þekking sem er til staðar hér getur stuðlað að aukinni verðmætasköpun og útflutningstekjum. Þó að Ísland sé eyja megum við ekki vera eyland í hugsun. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdstjóri SI, meðal annars í viðtali í nýjustu útgáfu 300 stærstu sem Frjáls verslun gefur út. Hann segir jafnframt að umhverfis- og loftslagsmál hafi fengið sérstakan sess í starfsemi Samtaka iðnaðarins sem sé til marks um hað hlutirnir hafa breyst mikið á stuttum tíma. Atvinnulífið og iðnaðurinn þar með talinn hafi mikinn áhuga á umhverfismálum og hafi lagt sín lóða á vogarskálarnar í þeim málum í mörg ár. „Varðandi loftslagsvandann þá er ekki nóg að tala bara um hann eða vekja máls á honum heldur þurfum við lausnir til þess að ná árangri. Stjórnvöld vísa veginn með því að senda skilaboð, samanber þetta metnaðarfulla markmið um kolefnishlutleysi, en lausnirnar koma frá atvinnulífinu.“ 

Hér er hægt að nálgast eintak af 300 stærstu útgáfunni.