Í upplýsingatækni ríkisins sé nýsköpun og samkeppni tryggð
Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök upplýsingatæknifyrirtækja (SUT) styðja markmið frumvarps um skipan upplýsingatækni í rekstri ríkisins, 141. mál, um að efla samræmda og hagkvæma stjórnun upplýsingatækni hjá ríkinu og hafa samtökin áður komið á framfæri athugasemdum vegna málsins. Að mati SI og SUT felur frumvarpið í sér tækifæri til að bæta þjónustu við almenning og draga úr kostnaði, en nauðsynlegt er að útfærsla þess tryggi áframhaldandi nýsköpun og heilbrigða samkeppni.
Í umsögn samtakanna er lögð áhersla á að ábyrgð ríkisins sem stefnumótandi aðila sé skýr og að framkvæmd verkefna sé áfram í höndum einkaaðila þegar við á. Mikilvægt er að hlutverk miðlægra eininga, svo sem Stafræns Íslands, sé afmarkað sem stoð og samhæfing – ekki framkvæmd.
Samtökin kalla eftir nánari skilgreiningu á heimildum ráðherra til að skylda ríkisaðila til notkunar sameiginlegra innviða án gagnsæis og samráðs. Slíkar heimildir geta dregið úr hvatningu til nýsköpunar og torveldað aðgengi nýrra hugbúnaðarfyrirtækja að verkefnum.
Enn fremur minna samtökin á mikilvægi gagnsæis í opinberum innkaupum. Kröfur í útboðum þurfa að vera raunhæfar og hvetja til þátttöku nýrra aðila. Þannig má tryggja fjölbreytni, samkeppni og tæknilega þróun til hagsbóta fyrir opinbera þjónustu.
Að lokum hvetja samtökin til virks og reglulegs samráðs við atvinnulífið. Með öflugri samvinnu ríkis og einkageira er unnt að byggja upp traust, efla nýsköpun og tryggja að opinber þjónusta þróist með þörfum samfélagsins að leiðarljósi.
Hér er hægt að nálgast umsögn SI og SUT í heild sinni.