Íbúðamarkaður að færast nær jafnvægi en blikur á lofti
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í Morgunblaðinu um nýja greiningu SI að íbúðamarkaðurinn sé að færast nær jafnvægi. Það birtist meðal annars í verðbreytingum, veltu og fjölda íbúða á skrá. Meðal annars séu verðbreytingar síðustu þriggja mánaða mun hóflegri en um mitt þetta ár. Síðustu þrjá mánuði hafi íbúðaverð hækkað um 1% en í maí hafi þriggja mánaða verðhækkunin verið um 9%, svo dæmi sé tekið. En Ingólfur segir í Morgunblaðinu að hins vegar séu blikur á lofti, óvissa sé mikil á erlendum mörkuðum, aðfangakeðjur hökti sem hafi leitt til hærra verðs og lengri afhendingartíma. „Orka hefur verið af skornum skammti víða í Evrópu sem leitt hefur til hærra orkuverðs. Verðbólga er mikil sem kemur niður á kaupmætti. Brugðist hefur verið við með vaxtahækkunum en auk þess hefur áhættuálag ofan á vexti hækkað.“ Hann segir að samandregið kunni þetta að draga úr fjárfestingu á Íslandi á næsta ári, þ.m.t. íbúðafjárfestingu, og það hafi aftur áhrif á framboðið innan fárra ára. „Þetta er að kæla markaðinn. Bæði eykst kostnaður og það dregur úr vexti eftirspurnar. Mikilvægt er að við höldum uppi fjárfestingarstiginu þannig að við búum ekki aftur til ójafnvægi á þessum markaði, litið fram í tímann.“
Spá 3.200 nýjum íbúðum á markað á næsta ári
Í Morgunblaðinu kemur fram með hliðsjón af því hve margar íbúðir séu í byggingu um þessar mundir spái Samtök iðnaðarins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) því nú, að tæplega 3.200 þúsund íbúðir komi fullbúnar á íbúðamarkaðinn á næsta ári og að á árinu 2024 verði fjöldinn viðlíka. Framboð íbúða á þessu tímabili verði því nokkuð stöðugt ef spáin gengur eftir en langtímaþörfin hafi verið áætluð 3.500 til 4.000 íbúðir á ári.
Tryggja að byggt sé í takti við þarfir markaðarins
Þá segir í Morgunblaðinu að SI hafi unnið greiningu á stöðu mála fyrir kynningarfund sem haldinn er í dag. Tilefnið sé birting nýrra upplýsinga úr mannvirkjaskrá um fjölda íbúða í byggingu hverju sinni í rauntíma. Einnig kemur fram í Morgunblaðinu að í greiningunni segi að þetta sé mikil breyting frá því sem verið hafi og segja megi að þar sé að skila sér vinna síðustu ára sem hafi falist í að tryggja að byggt sé í takti við þarfir markaðarins. Framboð nýrra íbúða sé nú mun nær því að vera fullnægjandi en áður.
Miklar sveiflur reyna á þanþol byggingariðnaðarins
Einnig kemur fram í Morgunblaðinu að í greiningu SI segi að miklar sveiflur hafi einkennt byggingariðnað og mannvirkjagerð hér á landi síðustu áratugi: „Má í því sambandi nefna að greinin ríflega helmingaðist í umfangi eftir efnahagsáfallið 2008 en hefur meira en tvöfaldast í umfangi síðan. Samdrátturinn í greininni eftir 2008 var ríflega tífalt meiri í greininni en í hagkerfinu í heild og greinum hagkerfisins að jafnaði. Uppsveiflan sem á eftir fylgdi var að sama skapi mun kröftugri en í hagkerfinu almennt.“ Þessar sveiflur hafi reynt mjög á þanþol byggingariðnaðarins: „Má í því sambandi nefna að frá miðju ári 2008 fram á mitt ár 2011 fækkaði starfandi í greininni um ríflega 10 þúsund, þ.e. fjöldinn fór úr ríflega 19 þúsund niður í ríflega 9 þúsund. Hlutfallslega var þetta ríflega sexfalt meiri fækkun starfandi en í hagkerfinu í heild. Síðan þá hefur fjölgað umtalsvert í greininni aftur og eru þar nú starfandi ríflega 17 þúsund. Þetta er ríflega fimmfalt meiri fjölgun í starfsmannafjölda en almennt var í hagkerfinu á þessum tíma.“
Morgunblaðið, 13. desember 2022.