Fréttasafn30. ágú. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Íbúðauppbygging ekki að þróast í takti við þarfir og vilja

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, var meðal frummælenda á Húsnæðisþingi HMS og innviðaráðuneytisins sem fór fram á Reykjavík Hilton í morgun. Yfirskrift erindis Ingólfs var Þróun íslenska húsnæðismarkaðarins; sjónarhorn byggingariðnaðarins. Ingólfur lýsti yfir áhyggjum af því að íbúðauppbygging væri ekki að þróast í takti við þarfir og vilja landsmanna. Hann sagði meðal annars að afleiðingar íbúðaskorts vera háa verðbólgu og hærri vexti sem komi niður á heimilum og fyrirtækjum. Hann kallaði eftir stöðugleika í uppbyggingu íbúða og sagði rammasamning ríkis og sveitarfélaga sem gerður var um mitt síðasta ár vera jákvæðan m.t.t. stefnu um fjölgun íbúða en þar væru áherslurnar ekki í takti við vilja landsmanna. Of mikil áhersla væri á leiguíbúðir með opinberum stuðningi en kannanir sýndu að landsmenn vilja frekar eiga sitt húsnæði frekar en leigja. 

Ingólfur sagði jafnframt að með mikilli fjölgun landsmanna væru fjórir nýir íbúar um hverja nýja íbúð sem komi á markaðinn en ætti að vera um 2-2,5 íbúar. Það væri því verið að byggja alltof lítið miðað við fólksfjölgun. Hann nefndi að í könnun meðal félagsmanna SI hafi komið fram að samdráttur í byggingu nýrra íbúða stefndi í 65% á milli ára. 

Þá kom fram í máli Ingólfs að stjórnvöld hafi sett sér markmið um uppbyggingu 35.000 nýrra íbúða á næstu 10 árum en að undanfarin ár væri fækkun í fullbúnum nýjum íbúðum á sama tíma og aukning hafi verið í fólksfjölgun. Viðmiðið væri 4.000 nýjar íbúðir á ári og allt stefndi í að við værum að fjarlægjast það markmið og að fullbúnar íbúðir 2025 yrðu ekki nema um helmingur af þörfinni eða tæplega 2.000 nýjar íbúðir skv. spá HMS. Hann sagði alltof mikla áherslu vera á uppbyggingu leiguíbúða með aðkomu hins opinbera því gert væri ráð fyrir 85% aukningu á slíkum íbúðum en ekki nema 19% aukningu íbúða fyrir séreignamarkað sem væri á skjön við vilja landsmanna.

Ingólfur fór einnig inn á það væri rangnefni að ræða um hagkvæmar íbúðir því það væru í raun íbúðir sem væru niðurgreiddar af hinu opinbera, þ.e. íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga væru niðurgreiddar um að minnsta kosti 30% því ríkið leggi fram 18% af stofnkostnaði slíkar íbúða og sveitarfélag leggi til 12%. Þá væri að auki heimildir til að niðurgreiða námsmannaíbúðir um 4% til viðbótar og ef eignin er á landsbyggðin aukist framlag hins opinbera um 10%. Hámarks framlag hins opinbera væri því 44%. Hann sagði að svo virtist sem þessar íbúðir fái forgang í kerfinu á meðan verktakar sem ætla að byggja íbúðir fyrir séreignamarkað lenda í verulegum töfum. Hann sagði að stjórnvöld ættu að færa áherslur frá stofnframlögum yfir í hlutdeildarlán sem hjálpuðu tekjulægra og eignaminna fólki að eignast sitt eigið húsnæði, frekar en að leggja áherslu á uppbyggingu leiguíbúða með opinberum stuðningi. 

Í lokaorðum Ingólfs kom fram að það þyrfti samvinnu ríkis, sveitarfélaga og iðnaðarins til að ná markmiðum um að byggja í takti við þarfir landsmanna. 

Hér er hægt að nálgast glærur Ingólfs.

Á vef HMS er hægt að nálgast upptöku af þinginu.