Fréttasafn



1. nóv. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Íbúðauppbygging taki mið af þörfum markaðarins

Þorgils Helgason, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, flutti erindi á fundi sem HMS, Tryggð byggð og Samtök iðnaðarins stóðu fyrir á Akranesi með yfirskriftinni Byggjum í takt við þarfi. Um er að ræða fundarröð um land allt um stöðu íbúðauppbyggingar og framtíðarhorfur.

Í erindi sínu fór Þorgils meðal annars yfir mikilvægi þess að íbúðaruppbygging taki mið af þörfum markaðarins. Hann sagði að of lengi hafi of lítið verið byggt sem þýði að of lítið framboð leiði til hækkunar húsnæðisverðs. Þá kom fram í máli Þorgils að Samtök iðnaðarins hafi gagnrýnt neikvæða hvata á byggingarmarkaði, óstöðugt starfsumhverfi, óljósar gjaldheimildir sveitarfélaga og lækkun endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu manna á verkstað. Hann sagði að samtökin hafi einnig vakið athygli á miklum samdrætti verkefna á fyrstu stigum uppbyggingar og að samtökin hafi hvatt stjórnvöld til að beita sér fyrir auknu framboði á lóðum.

Í máli Þorgils kom fram að Akraneskaupstaður væri eitt af þremur sveitarfélögum sem hafi byggt nægilega mikið síðastliðin tvö ár og framboð lóða hafi verið þar með ágætum.

Fundurinn var vel sóttur af fulltrúum úr stjórnsýslunni, arkitektum og byggingaraðilum.