Fréttasafn



1. okt. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Íbúðaverð heldur áfram að hækka vegna lóðaskorts

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt RÚV að ekki hafi færri íbúðir verið í byggingu á höfuðborgarsvæðinu síðan í febrúar 2017. Hann segir ástæðuna fyrst og fremst lóðaskort og haldi þessi þróun áfram mun íbúðaverð halda áfram að hækka. 

Í fréttinni kemur fram að ný íbúðatalning SI sýni að nú séu tæplega 3.400 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu sem sé 18% minna en á sama tíma í fyrra þegar þær voru rúmlega 4.100. Mesti samdrátturinn sé í Reykjavík, þar sem íbúðir í byggingu séu 24% færri, minnstur sé hann í Kópavogi eða 10%, en þrjár af hverjum fjórum íbúðum í byggingu á svæðinu séu í þessum tveimur sveitarfélögum.

Lóðaskortur er flöskuhálsinn

Ingólfur segir í fréttinni að áhrif þessa gæti víða. „Þetta er talsverð breyting og ekki góð þróun. Það hefur verið vöntun á íbúðum á þessum markaði undanfarið, sem hefur verið að þrýsta upp verðinu talsvert og komið fram í aukinni verðbólgu og skilað inn þessum stýrivaxtahækkunum sem við höfum verið að sjá á þessu ári. Þannig að þetta kemur víða neikvætt fram.“ Hann segir að ástæður þessa séu nokkrar: „Kannski fyrst og fremst skortur á lóðaframboði. Við höfum fundið það hjá okkar félagsmönnum að þeir kvarta yfir því að það sé lítið framboð. Og það er helsti flöskuhálsinn í þessu.“

Framboð mætir ekki eftirspurn og verðin þrýstast upp enn frekar

Þegar Ingólfur er spurður hvað verði ef þessi þróun haldi áfram: „Þá er líklegt að við sjáum áfram þessa þróun sem við höfum verið að sjá; framboðið af íbúðarhúsnæði er ekki að mæta þeirri eftirspurn sem er til staðar sem leiðir til þess að þrýsta verðinu upp enn frekar.“

RÚV, 29. september 2021