Fréttasafn



6. okt. 2016 Mannvirki

Íbúðum í byggingu fjölgar

Í Morgunblaðinu í dag er umfjöllun um nýja talningu Samtaka iðnaðarins á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Tæplega 3.000 íbúðir eru í byggingu sem er um 500 fleiri íbúðir en var á sama tíma í fyrra. Ekki hafa fleiri íbúðir verið í byggingu frá árinu 2010. Í Morgunblaðinu er haft eftir Jóni Bjarna Gunnarssyni, aðstoðarframkvæmdastjóra SI, að þörf sé á að bæta við 1.600 til 1.800 íbúðum á ári. Það taki tæp tvö ár að byggja hverja íbúð þannig að þær 3.000 íbúðir sem nú eru taldar í byggingu samsvari nokkurn veginn þörfum markaðarins. En hins vegar segir Jón Bjarni að enn sé óleystur húsnæðisvandinn sem varð til eftir hrun. Hann nefnir einnig að íbúðir sem teknar eru í skammtímaleigu fyrir ferðafólk rugli myndina þar sem áætlað sé að 3.000 íbúðir hafi farið í skammtímaleigu og samsvari það tveggja ára þörf fyrir nýjar íbúðir. Það þurfi því að auka byggingamagnið sem því nemur til að halda í við fjölgun íbúa. Haft er eftir Jóni Bjarna að það virðist ganga vel að selja því það sjáist nánast engar fullbúnar íbúðir sem standi tómar. 

Fjölgunin aðallega í fjölbýlishúsum
Í talningartölunum kemur fram að tæplega 100 einbýlishús eru í byggingu og 200 rað- og parhús. Aukningin á milli ára kemur því aðallega fram í fjölbýlishúsum. Jón Bjarni segir í samtali við Helga Bjarnason, blaðamann á Morgunblaðinu, að þeir verktakar sem byggja raðhús láti vel af sér og telji að markaður sé fyrir fleiri hús ef lóðir fást. Hann segir að framboðið af lóðum hafi minnkað mikið. Það sé helst í miðbæ Reykjavíkur og þar í kring en það séu dýrar einingar. Fyrir þá sem eru að kaupa í fyrsta skipti þyrfti að vera hægt að byggja í úthverfum en þar sé ekki mikið af lóðum í boði.