Fréttasafn



26. mar. 2024 Almennar fréttir Menntun

Iðnaðarmannafélagið í Hafnarfirði gefur fjármagn til nýs Tækniskóla

Iðnaðarmannafélagið í Hafnarfirði hefur ánafnað Tækniskólanum 38 milljónir króna og var samningur þess efnis undirritaður í Húsi atvinnulífsins. Félagið leitaði liðsinni Samtaka iðnaðarins við framkvæmdina. Þeir fjármunir sem Iðnaðarmannafélagið í Hafnarfirði afhenti Tækniskólanum eru fyrsta eiginfjárframlag sem berst til skólans í þágu nýbyggingar skólans.

Tækniskólinn er nú starfræktur í níu byggingum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Fyrirhugað er að sameina alla starfsemi skólans á einum stað í nýrri byggingu við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði.

Iðnaðarmannafélagið í Hafnarfirði var stofnað 11. nóvember 1928 sama dag og sama ár og Iðnskólinn í Hafnarfirði var settur á fót. Iðnaðarmannafélaginu í Hafnarfirði hefur nú verið slitið og samþykkti stjórn félagsins að láta allar eignir félagsins renna til nýbyggingar Tækniskólans sem til stendur að reisa í Hafnarfirði.

Erling Jóhannesson, vélstjóri og fyrrum stjórnarmaður í Iðnaðarmannafélaginu í Hafnarfirði: „Félagar í Iðnaðarmannafélaginu í Hafnarfirði lýsa ánægju sinni með að geta lagt lóð á vogarskálarnar við upphaf byggingar Tækniskólans í Hafnarfirði og þykir fjármunum þessum vel varið til eflingar iðn- og tæknináms. Við óskum Tækniskólanum alls velfarnaðar um ókomna tíð.“

Egill Jónsson, formaður Tækniskólans og byggingarnefndar skólans: „Við erum afskaplega þakklát Iðnaðarmannafélaginu í Hafnarfirði sem leggur fram fyrsta eiginfjárframlagið til nýs Tækniskóla. Það er bæði táknrænt og merkilegt og lagt fram af heilindum og myndarbrag.”

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans: ,,Við tökum af auðmýkt við þessu höfðinglega framlagi sem okkur þykir afar vænt um. Við munum verja því vel við byggingu nýs Tækniskóla og tryggja að merkri sögu og framlagi Iðnaðarmannafélagsins í Hafnarfirði verði gerð góð skil í nýrri byggingu.“

Myndir/BIG

Á myndinni eru, talið frá vinstri í fremri röð, Grétar K. Ingimundarson, fyrrum formaður Iðnaðarmannafélagsins í Hafnarfirði, Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, Egill Jónsson, formaður Tækniskólans og byggingarnefndar skólans, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI. Í aftari röð eru Erla Tinna Stefánsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, Sveinn Elísson fyrrum stjórnarmaður Iðnaðarmannafélagsins í Hafnarfirði, Erling Jóhannesson fyrrum stjórnarmaður Iðnaðarmannafélagsins í Hafnarfirði, Samúel Vilberg Jónsson fyrrum stjórnarmaður Iðnaðarmannafélagsins í Hafnarfirði, Jón B. Stefánsson í byggingarnefnd Tækniskólans, Guðrún Randalín Lárusdóttir, aðstoðarskólameistari Tækniskólans, og Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI.

Undirritun_mynd2Frá undirritun samningsins, talið frá vinstri, Grétar K. Ingimundarson, fyrrverandi formaður Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar, Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, og Egill Jónsson, formaður Tækniskólans og byggingarnefndar skólans.


Fjarðarfréttir, 27. mars 2024.