Fréttasafn16. des. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Iðnaðarstörf í hættu í samdrættinum

Í nýrri greiningu SI, Iðnaðarstörf í hættu, kemur fram að iðnaður sé umfangsmikill á íslenskum vinnumarkaði en ríflega 43 þúsund manns störfuðu í iðnaði á síðastliðnu ári eða ríflega einn af hverjum fimm hér á landi. Undirstrika tölurnar umfang iðnaðarins á íslenskum vinnumarkaði og mikilvægan þátt greinarinnar í gangverki hagkerfisins. Starfsemi fyrirtækja í iðnaði er fjölbreytileg á sviði framleiðsluiðnaðar, mannvirkjagerðar og hugverkaiðnaðar. Skapar greinin margvísleg störf á fjölmörgum sviðum samfélagsins bæði beint og óbeint. Fyrirtækin í greininni eru af ýmsum stærðum um allt land í útflutningi og þjónustu við innlendan markað.

Í ljósi umfangs iðnaðar sætir það nokkrum tíðindum að fyrirtæki í helstu greinum iðnaðarins eru nú að fækka starfsfólki. Í iðnaði mældist í október sl. 3,7% samdráttur í fjölda launþega í framleiðsluiðnaði (án fiskvinnslu), 2,8% samdráttur í mannvirkjagerð og 2,6% samdráttur í hugverkaiðnaði. Samdrátturinn birtist m.a. í því að atvinnuleysi hefur aukist til muna í landinu en það mældist 4,1% í nóvember síðastliðnum samanborið við 2,5% í sama mánuði í fyrra. 

Fjoldi-launthega_1576501010672

Ofangreindar samdráttartölur bera með sér að samdrátturinn í hagkerfinu um þessar mundir er að koma fram í iðnaði. Þróunin undirstrikar hvað stöðugt starfsumhverfi er mikilvægur þáttur fyrir samkeppnishæfni iðnaðar. Verkefni á sviði peningamála og opinberra fjármála er um þessar mundir að milda niðursveifluna. Örva má fjárfestingu og hagkerfið til vaxtar m.a. með lækkun stýrivaxta, góðu aðgengi að fjármagni, auknum innviðafjárfestingum og lækkun á álögum á fyrirtæki. Án nægjanlegra aðgerða á sviði hagstjórnar er hætta á því að niðursveiflan í hagkerfinu verði dýpri og meira langvarandi með alvarlegum afleiðingum, ekki bara fyrir iðnaðinn heldur alla atvinnustarfsemi í landinu og hag heimilanna.    

Fjórðungur nýrra starfa hafa orðið til í iðnaði

Á margan máta hefur vel tekist til við að efla iðnað hér á landi á síðustu árum. Það sést m.a. í því að starfandi í iðnaði hefur fjölgað umtalsvert. Í greininni í fyrra voru starfandi um 9.814 fleiri en árið 2010 eða þegar hagkerfið byrjaði að taka við sér eftir efnahagsáfallið 2008. Það er tæplega eitt af hverjum fjórum störfum sem sköpuðust í hagkerfinu á þessum tíma. Hlutfallið er vísbending um stóran þátt greinarinnar í hagvexti tímabilsins og framlag hennar til bættra efnahagslegra lífsgæða í landinu. Mikilvægt er að byggt sé áfram á þessum grunni öflugs iðnaðar hér á landi með hagstjórn sem ver fyrirtæki og heimili fyrir niðurrifi efnahagssamdráttar. 

Starfandi-i-idnadi


Þrjár megingreinar iðnaðar umfangsmiklar

Iðnaður samanstendur af fjölbreyttri starfsemi lítilla og stórra fyrirtækja sem staðsett eru um allt land. Í grófum dráttum má skipta fyrirtækjum í iðnaði í þrjár greinar, þ.e. framleiðsluiðnað, mannvirkjagerð og hugverkaiðnað. Ólík flóra fyrirtækja innan raða iðnaðar er mikilvægt sérkenni atvinnugreinarinnar og uppspretta afar fjölbreyttra starfa í íslensku efnahagslífi.

Heildarfjöldi launþega í mannvirkjagerð var 14.700 á síðasta ári samanborið við 8.300 árið 2012 þegar uppsveiflan í þeirri grein hófst og fjárfesting í hagkerfinu fór að vaxa að nýju. Fjölgunin er 6.400 eða um 18% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu á þeim tíma. Umfang greinarinnar hefur aukist í uppsveiflunni og undirstrikar það stóran þátt greinarinnar í síðustu efnahagsuppsveiflu. Greinin hefur verið í uppbyggingu atvinnuhúsnæðis, íbúða og annarra innviða.

Efnahagssveiflurnar hér á landi birtast í sveiflum í þessari grein með ýktum hætti. Stöðugleikinn er greininni því afar mikilvægur en sveiflurnar koma niður á uppbyggingu og framleiðni innan greinarinnar. Niðursveiflan nú er sérstaklega að koma fram í samdrætti í fjárfestingu atvinnuveganna. Mikilvægt er að þessu sé mætt af hálfu hins opinbera með auknum innviðaframkvæmdum en þannig er bæði niðursveiflan milduð og unnið á uppsafnaðri þörf á þeim vettvangi sem myndar grundvöll hagvaxtar til lengri tíma.

Heildarfjöldi launþega í framleiðsluiðnaði án fiskvinnslu var 16.800 á síðasta ári sem var um 8,3% af heildarfjölda starfandi í hagkerfinu á því ári. Starfandi í greininni hafði þá fjölgað um 2.500 frá því að hagkerfið byrjaði að taka við sér 2011 og nemur það um 6,3% af heildarfjölgun starfandi í hagkerfinu á tímabilinu. Hlutfallslega hefur fjölgað mest í hátækniframleiðslu.

Hugverkaiðnaður er umfangsmikill hér á landi en launþegar voru 11.800 í þeirri grein á síðasta ári. Það er 5,8% af heildarfjölda launþega í landinu og undirstrikar mikilvægi greinarinnar fyrir hagkerfið allt. Störfum í þeirri grein iðnaðar hefur fjölgað um 1.500 síðan hagkerfið byrjaði að taka við sér árið 2010. Um er að ræða 3,7% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu á tímabilinu. Hugverkaiðnaður hefur bæði beint og óbeint verið þáttur í þeim vexti gjaldeyristekna sem dreif síðustu efnahagsuppsveiflu áfram enda hafa fyrirtæki í greininni meirihluta tekna sinna erlendis frá. Fyrirtæki í hátækniframleiðslu fluttu þannig út 75% af veltu sinni á árunum 2017-2019 sem er tvöfalt á við meðaltalið í viðskiptahagkerfinu.

Starfandi-i-idnadi-fjoldi

Í ljósi niðursveiflunnar og hver rétt viðbrögð eru við henni er mikilvægt að hafa í huga að samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar skiptir sköpum fyrir verðmætasköpun iðnaðar. Þeir málaflokkar sem mestu skipta í þessu sambandi litið til framtíðar eru menntun, nýsköpun, starfsumhverfi, innviðir, orka og umhverfi og ímyndarmál. Sterk staða í þessum málaflokkum er líkleg til þess að efla framleiðni og auka verðmætasköpun fyrirtækja í greininni til heilla fyrir heimilin í landinu. Með sterkri samkeppnishæfni má undirbyggja nýtt hagvaxtartímabil hér á landi.   

Hér er hægt að nálgast PDF af greiningunni.  


mbl.is, 16. desember 2019.

Kjarninn, 16. desember 2019.


Fréttablaðið, bls. 2, 17. desember 2019.