Fréttasafn



29. mar. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Iðnaðarsýningin 2023 í Laugardalshöll

Iðnaðarsýningin 2023 fer fram í Laugardalshöll 31. ágúst til 2. september í haust. Helstu svið sýningarinnar verða mannvirki, orka, innviðir, hönnun og vistvænar lausnir. 

Það er sýningarfyrirtækið Ritsýn sem stendur að sýningunni sem er unnin í samstarfi við Samtök iðnaðarins. Ritsýn hefur áður staðið fyrir fagsýningunum Iceland Fishing Expo/Íslenskur sjávarútvegur, Íslenskur landbúnaður og Stóreldhúsið sem allar hafa verið vel sóttar. Á vef sýnngarinnar kemur fram að ýmsir sýnendur hafi sýnt áhuga á víðtækri iðnaðarsýningu.

Þar segir jafnframt að iðnaður sé mjög stór hluti hagkerfis okkar. Samkvæmt hagtölum skapi hann rúmlega um fimmtung landsframleiðslunnar og þá sé aðeins rætt um beint framlag til landsframleiðslunnar. Hið óbeina framlag sé mun meira. 

Iðnaðarsýningin 2023 á að spanna hið víða svið iðnaðar hvort sem er á sviði mannvirkja, orku, framleiðslu, hugverka eða grænna lausna svo eitthvað sé nefnt. Á vefnum segir að slík sýning eigi erindi við landsmenn hvort sem þeir starfi eða tengist iðnaði.

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar um Iðnaðarsýninguna 2023. 

Hér er hægt að bóka sýningarbás.