Fréttasafn



12. mar. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Iðnaður er drifkraftur verðmætasköpunar á Íslandi

Iðnaður er stærsta útflutningsgreinin og er skattspor iðnaðarins stærst allra útflutningsgreina. Ef fram fer sem horfir verður hugverkaiðnaður verðmætasta stoð útflutnings eftir fimm ár. Þetta sagði Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, meðal annars í erindi sínu á Iðnþingi sem bar yfirskriftina Mikilvægi iðnaðar í alþjóðlegu umhverfi.

Ingólfur sagði að í alþjóðlegum samanburði væri verðmætasköpun á hvern íbúa á Íslandi með því hæsta sem gerist. „Við erum með lítið atvinnuleysi, mikinn kaupmátt og við getum veitt okkur hluti sem margar aðrar þjóðir geta ekki.“ Hann sagði íslenskan iðnað skýra stóra hluta af þessum árangri og að iðnaðurinn standi undir stórum hluta hagsældar landsmanna. 

Iðnaður aflar 750 milljarðar króna í útflutningstekjur

Í máli Ingólfs kom fram að iðnaðurinn er stærsta útflutningsgreinin en á síðasta ári aflaði iðnaður 750 milljarða króna í útflutningstekjur sem nemur 39% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. Hann sagði verðmætasköpun greinarinnar hafa numið 900 milljörðum króna á síðasta ári sem er um fjórðungur landsframleiðslunnar og að í greininni starfi 52 þúsund manns eða einn af hverjum fjórum á innlendum vinnumarkaði. 

Úr einhæfu hagkerfi í fjórar útflutningsstoðir

Ingólfur sýndi samanburð frá árinu 1980 þegar íslenskt hagkerfi var mjög einhæft og sjávarútvegur stóð undir um 60% af öllum útflutningstekjum og þar með langstærsta útflutningsstoð landsins. Hann bar það saman við árið 2024 þegar stoðir útflutnings eru orðnar fjórar; orkusækinn iðnaður, hugverkaiðnaður, sjávarútvegur og ferðaþjónusta. Hann sagði að með því að byggja útflutning á fleiri stoðum væru minni sveiflur í útflutningstekjum, meiri fjölbreytni í störfum og tækifærum og sterkari grunnur fyrir hagvöxt og fjárfestingar.

Hugverkaiðnaður verði stærsta útflutningsgreinin 2030

Einnig kom fram hjá Ingólfu að hagkerfið væri búið að færast úr því að vera auðlindadrifið í hugverkadrifið. Hugverkaiðnaður hefur tvöfaldað útflutningstekjur sínar síðustu 5 ár og ef áætlanir greinarinnra ganga eftir mun það gerast aftur og verður þar með stærsta útflutningsgreinin. Hann sagði hugverkaiðnað vera grein sem sé ekki bundin sömu takmörkunum og auðlindadrifinn útflutningur.

Gæta hagsmuna bæði til austurs og vesturs

Ingólfur fór inn á yfirvofandi tollastríð og mikilvægt væri að Ísland gætti hagsmuna sinna bæði til austur og vestur. Um 70% af útflutningi iðnaðar eru vörur og er Evrópumarkaður langmikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar iðnaðarvörur (73%). Helstu vörur sem fluttar eru út til ESB eru ál og álvörur, kísiljárn og tæki og vörur til lækninga. Einnig sagði Ingólfur umtalsverðan útflutning til Evrópulanda utan ESB (10%) sem eru aðallega ál, álafurðir og lyfjavörur. Útflutningur til Bandaríkjanna sé einnig í vexti og skipi sífellt stærri sess (12%) og er þar aðallega um að ræða lækningavörur og –tæki og kísiljárn. 

Iðnaður með stærsta skattsporið

Í nýrri greiningu Reykjavík Economics kemur fram að skattspor iðnaðar nam 464 milljörðum króna í fyrra. Skattspor greinarinnar, þ.e. framlag iðnaðarins til samfélagsins í formi skattgreiðslna, sé því mjög umfangsmikið. Hann sagði þröngt skattspor iðnaðarins, þ.e. þegar virðisaukaskattur er undanskilinn, nema 220 milljörðum króna sem sé meira en samanlagt skattspor ferðaþjónustunnar og sjávarútvegsins. Í máli Ingólfs kom fram að Ísland væri háskattaland þar sem ríflega 32% verðmætasköpunar íslenska hagkerfisins renni til stjórnvalda í formi skatta. Hlutfallið sé hátt í alþjóðlegum samanburði og álögur hins opinbera á heimili og fyrirtæki í landinu í formi skatta séu því miklar í samanburði við flest önnur ríki.

Í lokaorðum sínum sagði Ingólfur að með áherslum á samkeppnishæfni mundi íslenskur iðnaðar blómstra til hagsbóta fyrir alla þjóðina.

Hér er hægt að nálgast glærur Ingólfs frá Iðnþingi 2025.

Si_idnthing_2025-35

Si_idnthing_2025-33_1741777955466

Hér er hægt að nálgast upptöku af erindi Ingólfs:

https://vimeo.com/1063501548