Fréttasafn



8. mar. 2023 Almennar fréttir

Iðnaður er stærsta útflutningsgreinin

Í Fréttablaðinu segir að iðnaður sé stærsta útflutningsgreinin samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar með 44% útflutningstekna hagkerfisins, en innan iðnaðarins séu tvær af fjórum stoðum útflutnings, hugverkaiðnaður og orkusækinn iðnaður. „Þetta skiptir verulegu máli fyrir allt hagkerfið, en útflutningstekjur eru forsenda bættra lífskjara fólks,“  segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í Fréttablaðinu.

Í fréttinni kemur fram að í heild námu útflutningstekjur iðnaðar 761 milljarði króna í fyrra. Til samanburðar voru tekjur af erlendu ferðafólki 448 milljarðar. Að sögn Ingólfs hefur greinin tvöfaldað útflutningstekjur sínar frá árinu 2017 og nemi aukningin 70 prósentum af vexti útflutningstekna hagkerfisins á þeim tíma. „Það er líka afar jákvætt að sjá að útflutningur er að verða fjölbreyttari og í meira mæli hugvitsdrifinn. Niðurstaðan er fjölbreyttara atvinnulíf sem rennir stoðum undir stöðugleika.“

Fréttablaðið, 8. mars 2023.