Fréttasafn



28. okt. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Iðnaður skapar 45% útflutningstekna

Iðnaður skapar 45% útflutningstekna eða 557 milljarða króna þegar horft er til ársins 2021. Tekjurnar eru af fjölbreyttri starfsemi iðnaðar á sviði framleiðslu-, hugverka- og byggingariðnaðar. Tekjur greinarinnar jukust umtalsvert á milli áranna 2020 og 2021 en þær mældust 477 ma.kr. á árinu 2020. Mikil aukning var á síðasta ári í tekjum af útflutningi orkusækins iðnaðar.

Fjölbreytileiki í gjaldeyrisöflun mikilvægur

Þetta háa hlutfall, 45% heildarútflutningstekna þjóðarbúsins af útflutningi vöru- og þjónustu, endurspeglar mikilvægi greinarinnar fyrir efnahagslíf landsmanna. Stendur hlutfallið nokkurn veginn í stað á milli áranna 2020 og 2021. Hlutfall iðnaðar í gjaldeyrissköpuninni var 33% árið 2019. Undirstrikar þróunin mikilvægi þess að hafa fjölbreytileika í gjaldeyrisöflum þjóðarbúsins en með þeim hætti er rennt stoðum undir stöðugleika efnahagslífsins, fyrirtækjum og heimilum til heilla.

25% útflutningstekna vegna áls og kísiljárns

Miklar breytingar hafa átt sér stað í samsetningu útflutningstekna þjóðarbúsins á undanförnum árum og áratugum. Lengi vel reiddu Íslendingar sig nær eingöngu á gjöful fiskimið við öflun útflutningstekna. Var það ekki fyrr en eftir miðbik síðustu aldar sem telja má að Íslendingar hefji að flytja út iðnaðarvörur svo heitið getur, en þá hófst starfsemi áliðnaðar hér á landi. Með með tilkomu þess iðnaðar voru stigin stór skref í að auka fjölbreytileika í gjaldeyrisöflun. Útflutningstekjur iðnaðar af útflutningi áls og álafurða ásamt kísiljárns voru 313 ma.kr. í fyrra eða um 25% útflutningstekna þjóðarbúsins.

Tækifæri til enn frekari vaxtar í hugverkaiðnaði

Útflutningstekjur hugverkaiðnaðarins hafa farið vaxandi á síðustu árum og er greinin nú orðin ein af fjórum meginstoðum í gjaldeyrisöflun. Greinin skapaði í fyrra um 195 ma.kr. eða tæplega 16% útflutningstekna þjóðarbúsins. Um er að ræða grein fyrirtækja í upplýsinga- og fjarskiptaiðnaði, lyfja-, líftækni- og heilbrigðisiðnaði og öðrum hátækniiðnaði og byggir greinin á hugviti og nýsköpun. Ljóst er að mikil tækifæri eru í greininni til enn frekari vaxtar. Samkeppnishæfni hugverkaiðnaðar hefur batnað undanfarið, m.a. vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á skilyrðum og hvötum til nýsköpunar hér á landi. Líkur eru á að framundan sé góður vöxtur í þessari grein.