Fréttasafn



2. apr. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Iðnaður stendur undir stórum hluta af starfsemi hins opinbera

„Útreikningur á skattspori sýnir að íslenskur iðnaður stendur undir stórum hluta af starfsemi hins opinbera. En hin hliðin á þessu háa framlagi iðnaðarins til hins opinbera er að álögur á fyrirtæki og heimili á Íslandi eru miklar miðað við flest önnur ríki,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í ViðskiptaMogganum um nýja greiningu SI um skattspor iðnaðar. 

Ingólfur segir jafnframt að skattar og gjöld á íslensk fyrirtæki séu margþætt. „Við höfum séð að það getur verið mjög íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Við vitum að háir skattar draga úr samkeppnishæfni og þar með er þá dregið úr markaðshlutdeild, fjárfestingum, verðmætasköpun og fjölda starfa. Hins vegar með því að lækka skatta og gjöld er frekar hvatt til aukinnar verðmætasköpunar sem þá aftur skilar sér í hærri tekjum og fleiri störfum.“

Í frétt ViðskiptaMoggans kemur fram að skattspor íslensks iðnaðar hafi numið 464 milljörðum króna árið 2023 og sé stærst meðal útflutningsgreina. Til samanburðar hafi skattspor ferðaþjónustunnar numið 180 milljörðum króna og sjávarútvegsins um 89 milljörðum króna. Í greiningunni sé bent á að íslenskur iðnaður standi undir stórum hluta af starfsemi hins opinbera. Þrátt fyrir að skattspor iðnaðarins sé mikið endurspegli það háa skattbyrði á íslensk fyrirtæki en um 32% af verðmætasköpun íslenska hagkerfisins renna til hins opinbera í formi skatta sem er hátt í öllum alþjóðlegum samanburði. 

ViðskiptaMogginn, 2. apríl 2025.

VidskiptaMogginn-02-04-2025