Fréttasafn



17. okt. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Iðnaðurinn er tilbúinn að byggja fleiri íbúðir

Ráðast þarf að rótum vandans og byggja fleiri íbúðir. Það verður ekki gert nema með samhentu átaki ríkis, sveitarfélaga, byggingariðnaðar og aðila vinnumarkaðar. Iðnaðurinn er tilbúinn. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Fréttablaðinu í dag. 

Í grein sinni segir Sigurður að of fáar íbúðir hafi verið byggðar á undanförnum árum: Engum dylst það ástand sem nú ríkir á húsnæðismarkaði. Landsmönnum hefur fjölgað hraðar í góðæri undanfarinna ára en spáð var en íbúðum hefur ekki fjölgað að sama skapi. Húsnæðisverð hefur hækkað umfram launaþróun síðustu ár, leiguverð hefur að sama skapi hækkað og erfiðara er fyrir nýja kaupendur að eignast sína fyrstu íbúð. Lausnin á þessum vanda er ljós. Eina raunhæfa leiðin til að bæta úr þessari stöðu er að byggja fleiri íbúðir, auka framboðið. 

Sama ferli að byggja einbýlishús og hátæknisjúkrahús

Sigurður segir jafnframt í greininni að með einföldun á regluverki sé hægt að byggja hagkvæmari íbúðir. Hér á landi sé ferli við byggingarframkvæmdir flóknara en á Norðurlöndunum, fleiri skref þurfi að taka hér en þar. Þá geri regluverkið ráð fyrir sömu kröfum hvort sem um ræðir einföld mannvirki eða flókin þegar kemur að byggingareftirliti. Þannig sé sama ferli við að byggja einbýlishús og hátæknisjúkrahús svo dæmi sé tekið. Hann segir a ðí öðrum löndum hafi verið tekið tillit til þessa og svo ætti einnig að gera hér á landi. 

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.