Fréttasafn



10. okt. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Iðnaðurinn leikur stórt hlutverk í gangverki hagkerfisins

Iðnaðurinn leikur stórt hlutverk í gangverki hagkerfisins. Nú þegar alþjóðaviðskipti breytast hratt og spennustig eykst í heiminum er mikilvægt að horfa fram á veginn. Við verðum að vera viðbúin nýjum veruleika þar sem samkeppni er harðari og aðgengi að mörkuðum ekki sjálfgefið. Þetta sagði Árni Sigurjónsson, formaður SI, meðal annars í ávarpi við opnun Iðnaðarsýningarinnar sem fór fram í Laugardalshöll í gær og haldin er í samstarfi við Samtök iðnaðarins.

Árni sagði það vera fagnaðarefni að stjórnvöld vinni nú að atvinnustefnu. „Við hjá Samtökum iðnaðarins gerum ráð fyrir að þar verði samkeppnishæfni landsins sett í forgang. Ef rétt er að málum staðið getur slík stefna orðið stökkpallur inn í næsta hagvaxtarskeið.“

Árni sagði íslenskan iðnað sem eina af stoðum efnahagslífsins skapi mikil verðmæti eða um 900 milljarða króna árlega eða fjórðung landsframleiðslunnar. Iðnaðurinn væri stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins og skilaði 750 milljörðum króna í útflutningstekjur í fyrra sem væri 39% af útflutningstekjum þjóðarbúsins. Hann sagði að einn af hverjum fjórum á innlendum vinnumarkaði starfaði í iðnaði eða um 52 þúsund manns.

Þá kom fram í ávarpi Árna að tækniþróunin væri líklega hraðari en nokkru sinni fyrr. „Þróun gervigreindar og stafrænnar tækni hefur áhrif á allar atvinnugreinar, þar með talið á iðnaðinn. Íslensk fyrirtæki eru þegar farin að nýta þessi tækifæri og mikilvægt að Ísland verði virkur þátttakandi í þessari byltingu. Með öflugum gagnatengingum, aðgengi að orku og framsýnni stefnu getum við orðið hluti af þeirri þróun fremur en áhorfendur.“

Árni sagði hugverkaiðnaðinn sem hafi vaxið hratt á síðustu árum væri skýr sönnun þess að hugvit og þekking geti skapað mikil verðmæti. „Ef við höldum áfram að byggja undir nýsköpun og hvetja til rannsókna og þróunar gæti hugverkaiðnaðurinn orðið okkar stærsta útflutningsgrein innan fárra ára.“ Hann sagði að við stæðum frammi fyrir fjölmörgum áskorunum, meðal annars í íbúðaruppbyggingu og viðhaldi innviða. „Þar þarf að bæta í. Bæði til að mæta þörfum heimilanna og til að styðja við atvinnulífið. Til að bregðast við samdrætti í íbúðaruppbyggingu þarf að tryggja að skipulag og gjaldtaka stjórnvalda styðji við, fremur en hamli, uppbyggingu framtíðarinnar. Innviðir eru ein af lykilforsendum framfara og því þarf að einfalda ferla og hraða framkvæmdum um allt land.“

Jafnframt kom fram í máli Árna mikilvægi þess að ungt fólk fái tækifæri til að mennta sig í þeim greinum sem atvinnulífið kallar eftir. „Á undanförnum árum hafa Samtök iðnaðarins unnið markvisst að því að fjölga nemendum í iðn- og tækninámi með góðum árangri. Ásókn í slíkt nám er mikil og þarf því stækka og efla skólana svo þeir geti tekið við áhugasömum nemendum. Það er fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka í aukinni verðmætasköpun og þar með betri lífskjörum landsmanna.“

Í lok ávarpsins sagði Árni að Iðnaðarsýningin muni án efa sýna þann kraft og þá fjölbreytni sem einkenni íslenskan iðnað. Þá þakkaði hann aðstandendum sýningarinnar, þeim Ólafi M. Jóhannessyni, framkvæmdastjóra sýningarinnar, og Ingu Ágústsdóttur, sýningarstjóra, fyrir gott samstarf.

Á Facebook SI er hægt að nálgast fleiri myndir.

Myndir/BIG

Árni Sigurjónsson, formaður SI.

Si_idnsyningin_opnun_2025-10

Si_idnsyningin_opnun_2025-8

Si_idnsyningin_opnun_2025-5