Fréttasafn15. maí 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Innistæða fyrir vaxtalækkun

Stýrivextir Seðlabankans eru háir og talsvert svigrúm er til lækkunar. Fjórar meginforsendur vaxtalækkunar eru þessar: (1) slaki hefur tekið við af spennu í efnahagslífinu, (2) horfur hafa versnað í efnahagsmálum, (3) nýir kjarasamningar skapa grundvöll stöðugleika og (4) verðbólguvæntingar hafa lækkað. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI um vexti Seðlabankans en vaxtaákvörðun peningastefnunefndar bankans verður kynnt á miðvikudaginn í næstu viku 22. maí. Samhliða mun Seðlabankinn gefa út ritið Peningamál sem hefur að geyma mat bankans á efnahagsástandinu og spá hans um framvinduna næstu misserin. Peningastefnunefndin mun funda tvo daga fyrir ákvörðunina um þá þætti sem móta ákvörðunina og taka ákvörðun sína í ljósi þeirrar umræðu.

Styrivextir-Sedlabanka-Islands

Síðasta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar var kynnt 20. mars síðastliðinn. Lagði seðlabankastjóri þá til að vextir bankans yrðu óbreyttir. Meginvextir bankans, þ.e. vextir á sjö daga bundnum innlánum, eru 4,5% og hafa þeir verið óbreyttir frá því að nefndin ákvað að hækka þá um 0,25 prósentur í byrjun nóvember 2018.

Í greiningunni er farið yfir þær fjórar meginforsendur sem eru fyrir vaxtalækkun nú: 

Slaki tekinn við af spennu

Takturinn hefur breyst hratt í gangi efnahagslífsins undanfarið. Miklar breytingar hafa orðið til hins verra í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins og sérstaklega er varðar tekjur af erlendum ferðamönnum vegna minna flugframboðs til og frá landinu. Hefur þetta áhrif á gang fjölmargra fyrirtækja. Lýsir þróunin sér m.a. í því að atvinnuleysi hefur aukist hratt og mældist í apríl sl. 3,7% samanborið við 2,3% í sama mánuði í fyrra. Á stuttum tíma hefur slaki tekið við af spennu í efnahagslífinu.    

Atvinnuleysi_1557935488469

Versnandi horfur í efnahagsmálum

Verulegar breytingar hafa orðið í horfum fyrir efnahagsframvinduna hér á landi á síðustu misserum. Lýsir það sér m.a. í væntingum fyrirtækjastjórnenda um minnkandi umsvif í atvinnulífinu. Samkvæmt könnun Gallup meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins hefur mat stjórnenda á núverandi stöðu í atvinnulífinu gerbreyst til hins verra og væntingar þeirra eru að þær versni enn á næstu sex mánuðum. Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, hefur ekki verið lægri síðan árið 2013 og eru væntingar til aðstæðna eftir 6 mánuði áfram í sögulegu lágmarki.

Spar-um-hagvoxt

Spár um hagvöxt hafa farið hratt lækkandi undanfarið. Nýjasta dæmið er spá Hagstofunnar sem birt var fyrir skömmu en stofnunin reiknar með því að í ár verði 0,2% samdráttur í hagkerfinu en stofnunin reiknað með 1,7% hagvexti í ár í síðustu þjóðhagsspá sinni sem birt var í lok febrúar síðastliðnum. Samhliða vaxtaákvörðun peningastefnunefndar nú mun Seðlabankinn birta nýja þjóðhagspá og má reikna með viðlíka þróun þar en bankinn spáði 1,8% hagvexti í ár í síðustu spá sinni sem birt var samhliða vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í byrjun febrúar sl.

Kjarasamningar skapa grundvöll stöðugleika

Vaxtaákvörðun peningastefnunefndar er sú fyrsta eftir að nýir kjarasamningar á vinnumarkaði við meirihluta almenna vinnumarkaðarins voru undirritaðir. Í samningunum felast hærri laun, einkum lágtekjuhópa, aukinn sveigjanleiki til að stytta vinnuvikuna og meira svigrúm til að haga vinnutíma. Samningarnir fela í sér beina tengingu milli svigrúms atvinnulífsins til launabreytinga og hækkunar launa og skapa þannig skilyrði stöðugleika. Kjarasamningarnir eru til langs tíma eða til ársins 2022 og skapa þannig grundvöll stöðugleika á vinnumarkaði og framleiðnivaxtar. Samningarnir eru þannig góð undirstaða fyrir lækkun stýrivaxta Seðlabankans.

Verðbólguvæntingar hafa lækkað

Samkvæmt nýrri könnun á verðbólguvæntingum aðila á innlendum fjármálamarkaði hafa verðbólguvæntingar lækkað frá síðustu könnun sem gerð var í janúar sl. Vænta þessir aðilar þess nú að verðbólgan verði 3% eftir eitt ár og 2,8% eftir tvö ár eða rétt við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Vænta þessir aðilar þess að það dragi úr verðbólgunni á næstunni en hún mælist nú 3,3%. Raunstýrivextir bankans, mældir sem munurinn á stýrivöxtum og verðbólguvæntingum hafa verið að hækka á tíma vaxandi slaka í efnahagslífinu. Það er andstæð þróun m.v. það sem rétt væri við þessar aðstæður, þ.e. að það væri dregið úr aðhaldi peningastefnunnar. 

Hér er hægt að nálgast greiningu SI sem er með yfirskriftinni Innistæða fyrir vaxtalækkun.