Fréttasafn26. mar. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Innleiðing lífsferilsgreiningar fyrir íslensk mannvirki

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasvið SI, flutti ávarp á fundi HMS um innleiðingu lífsferilsgreiningar (LCA) fyrir íslensk mannvirki. Á fundinum voru kynntar leiðbeiningar um innleiðinguna með breytingum á byggingarreglugerð sem tekur gildi 1. september 2025. 

Breytingarnar fela í sér að reikna skuli kolefnisspor mannvirkja í umfangsflokkum 2 og 3, sbr. 1.3.2. gr. í byggingarreglugerð, með því að gera lífsferilsgreiningar. Jafnframt á að skila niðurstöðum þeirra til HMS í gegnum rafræna skilagátt, bæði á hönnunarstigi áður en sótt er um byggingarleyfi og á lokastigi áður en lokaúttekt fer fram. Á fundinum kom fram að FSRE hafi þegar skilað inn fyrstu lífsferilsgreiningunni sem VSÓ ráðgjöf hafi unnið.

Á vef hms.is/lifsferilsgreining er hægt að nálgast nánari upplýsingar, þar á meðal:

- Leiðbeiningar um gerð lífsferilsgreininga.

- Íslensk meðaltalsgildi til að nota ef rauntölur þekkjast ekki.

- Helstu spurningar og svör.

- Rafræna skilagátt til að skila inn niðurstöðum lífsferilsgreininga.

- Yfirlit yfir helstu hugbúnaði fyrir gerð lífsferilsgreiningar.

- Dæmi um námskeið sem eru í boði.

- Ýmis konar ítarefni frá Norðurlöndum.