Fréttasafn20. okt. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Mannvirki – félag verktaka

Innviðaráðherra gestur aðalfundar Mannvirkis – félags verktaka

Aðalfundur Mannvirkis – félags verktaka fór fram í Húsi atvinnulífsins í dag og var innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson sérstakur gestur fundarins. Hófst fundurinn á samtali ráðherra við fundarmenn sem fjölmenntu til aðalfundar félagsins.

Í samtali ráðherra við fundarmenn var rætt um hin ýmsu málefni sem snerta innviðaráðuneytið og starfsumhverfi félagsmanna Mannvirkis en fór þar hæst umræður um samgönguinnviði annars vegar og húsnæðismál hins vegar. Hvað samgönguinnviði varðar bar hæst á góma samgönguáætlun ríkisins og fjárfestingar skv. henni auk fýsileika samvinnuverkefna, svokallaðra PPP-verkefna. Auk nýfjárfestinga í samgönguinnviðum var rætt um skort á viðhaldi núverandi samgönguinnviða og forgangsröðunar fjárfestinga út frá arðsemi framkvæmda. Hvað húsnæðismál varðar ræddu fundarmenn og ráðherra áhrif stöðu húsnæðismarkaðar á hagkerfið, vandamál við skipulag og lóðaframboð auk ágóða af því að koma upp einu ferli leyfismála við húsnæðisuppbyggingu. Fundarmenn og ráðherra voru sammála því að nauðsynlegt væri að koma á meiri stöðugleika og fyrirsjáanlega á markaði félagsmanna í stað þess að láta hann ávallt mæta sveiflum hagkerfisins. Lýstu fundarmenn og ráðherra yfir ánægju með samtalið áður en því lauk og var ráðherra þakkað kærlega fyrir komuna.

Ný stjórn Mannvirkis

Að loknu samtali fundarmanna og ráðherra tóku við hefðbundinn aðalfundarstörf. Sigþór Sigurðsson, formaður Mannvirkis – félags verktaka, sinnti fundarstjórn og sá Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, um fundarritun. Fundarstjóri fór þá sem formaður yfir skýrslu stjórnar vegna starfsársins 2022-2023 og gerði grein fyrir framboðum til stjórnar sem eftir fundinn er skipuð þeim Sigþóri Sigurðssyni (Colas), formanni, Gylfa Gíslasyni (JÁVERK), varaformanni, og Karli Andreassen (ÍSTAK), Kristjáni Arinbjarnar (ÍAV) og Sveini Hannessyni (Jarðboranir), allir meðstjórnendur.

Image00003_1697815322035