Innviðaskuldin hækkar og er orðin 15% af landsframleiðslu
„Staðan er að versna og við sjáum talsverða hækkun frá síðustu skýrslu. Þetta er hærra hlutfall af landsframleiðslu heldur en áður, en þetta er um 15% af landsframleiðslu sem skuldin nemur,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Dagmálum á mbl.is þar sem Magdalena Anna Torfadóttir ræðir við hann um nýja skýrslu SI og FRV um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi, orkumál og húsnæðismarkaðinn.
Sigurður segir að staða innviðaskuldar hafi versnað svo um munar frá síðustu skýrslu, uppsöfnuð viðhaldsskuld í innviðum nemi nú um 680 milljörðum króna en í síðustu skýrslu sem gefin var út árið 2021 hafi hún numið 420 milljörðum króna. Hann segir að úrbætur á vegakerfinu séu brýnastar en þar sé skuldin langmest. „Uppsöfnuð viðhaldsskuld í vegakerfinu nálgast 300 milljarða og hækkar talsvert frá því sem fyrir var.“
Þegar Sigurður er spurður hvað hann telji orsaka aðgerðaleysi stjórnvalda í þessum málum segir hann að það sé tilhneiging stjórnmálamanna til að ráðast fremur í ný verkefni en að sinna viðhaldi. „Það sem veldur þessari stöðu fyrst og fremst er að fjármunum er einfaldlega ekki forgangsraðað í endurbætur.“
Fyrstu skilaboð nýrrar ríkisstjórnar í orkumálum lofa góðu
Magdalena spyr Sigurð einnig um stöðu orkumála í þættinum en Sigurður bindur miklar vonir við ríkisstjórnina í þeim málaflokki. „Við sjáum frumvörp sem lúta að nýjum virkjunum og fyrstu skilaboð lofa góðu. Við vonum að þeim verði fylgt eftir með aðgerðum.“
Húsnæðisstefna Samfylkingar og Pírata í borginni hefur haft skaðleg áhrif
Í þættinum berst talið einnig að skipulags- og húsnæðismálum og segir Sigurður meðal annars að nýr meirihluti í Reykjavík þurfi að breyta um stefnu í húsnæðismálum. „Stefna meirihlutans í Reykjavík og þá sérstaklega stefna Samfylkingar og Pírata hefur haft mjög skaðleg áhrif á íslenskan efnahag. Þetta er eitthvað sem allir landsmenn finna fyrir.“
Hér er hægt að nálgast þáttinn á mbl.is.
ViðskiptaMogginn, 19. febrúar 2025.