Fréttasafn



18. nóv. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Ísland á ágætum stað í stafrænni samkeppnishæfni

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, segir í frétt Morgunblaðsins að Ísland sé á ágætum stað hvað varðar stafræna samkeppnishæfni og á nokkru betri stað en fyrir nokkrum árum en Ísland er í 19. sæti á lista yfir stafræna samkeppnishæfni (e. digital competitiveness) sem IMD-háskólinn í Lausanne gefur út. Í fréttinni kemur fram að Ísland hækki milli ára. 

Helsti styrkleiki Íslands mikil fjárfesting í rannsóknum og þróun

Sigríður segir í frétt Morgunblaðsins að mælikvarðinn sé þó ekki einhlítur og margt sem sé ekki tekið inn í myndina, hún segir að helstu styrkleikar Íslands séu mikil fjárfesting í rannsóknum og þróun. „Sú staða kemur ekki á óvart og er mjög jákvæð þróun fyrir hagsæld á Íslandi til framtíðar.“  Einnig segir hún í fréttinni að það sé áhyggjuefni að framleiðni í hagkerfinu hafi heilt yfir ekki verið eins mikil og hjá öðrum ríkjum og það birtist skýrt í þessum niðurstöðum að þar skorum við ekki nógu hátt. Á sama tíma dragi lélegar PISA-niðurstöður í stærðfræði Ísland niður samkvæmt þessum mælikvarða. Þá séu ekki nógu margir að útskrifast úr STEAM-greinum en þarna sé sá mælikvarði sérstaklega tekinn inn í myndina hvað varðar stafræna samkeppnishæfni. 

Þurfum að fjárfesta meira í fjarskiptainnviðum

„Við þurfum einnig að fjárfesta meira í fjarskiptainnviðum og þá sérstaklega öflugum gagnatengingum til Íslands og frá.“ Sigríður segir enn fremur í Morgunblaðinu að stafræn samkeppnishæfni muni ráða miklu um framtíðina. Spurð hvað fyrirtæki og stjórnvöld geti gert til þess að ýta undir stafræna samkeppnishæfni Íslands segir hún að mikilvægt sé að huga að fjárfestingu í stafrænum innviðum. „Einnig ættum við að laða til okkar erlenda fjárfestingu í upplýsingatækni, fjarskiptum og gagnatengingum og gera áherslubreytingar í menntakerfinu til þess að tryggja hæfni og færni nemenda á þessum sviðum.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 16. nóvember 2024.

Morgunbladid-16-11-2024