Ísland að klemmast á milli í tollastríðinu
„Það er auðvitað grafalvarlegt að viðskiptakjörin séu að versna og á sama tíma er mjög alvarlegt að Evrópusambandið hyggist vernda starfsemi kísiljárns í sambandinu en setja verndartolla á sömu starfsemi hér. Ísland er að klemmast á milli í tollastríðinu sem virðist geysa á alþjóðamörkuðum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í hádegisfréttum Bylgjunnar og á Vísi um fyrirhugaða tollahækkun Bandaríkjanna á íslenskan útflutning upp á 15% sem á að taka gildi á morgun auk þess sem Evrópusambandið áformar nýja verndartolla á járnblendi frá Íslandi og Noregi.
Mikilvægt að hafa rétt gögn í höndunum í viðræðum milli ríkja
Sigurður óttast að versnandi viðskiptakjör hafi neikvæð áhrif á lífskjör hér á landi og segir afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld hafi rétt gögn í höndunum þegar þau ræða við bandarísk yfirvöld um tollalækkun „Stjórnvöld hafa óskað eftir fundi vegna málsins og þá þurfa rétt gögn að liggja fyrir. Bandaríkin horfa bara á sínar upplýsingar og þeirra gögn sýna að þau séu í viðskiptahalla gagnvart Íslandi. Okkar gögn sýna svo annað. Það er umhugsunarefni að í hvert sinn sem upp kemur einhvers konar krísa hér á landi þá kemur í ljós að gögn og upplýsingar hér eru ekki réttar og það þarf að leiðrétta þau.“
Hyggilegt að horfa til viðskipta með gervigreind sem er vaxandi iðnaður
Sigurður telur að í samningaviðræðum þjóðanna þurfi að leggja áherslu á aukin viðskipti þeirra á milli. „Það kallar á auknar fjárfestingar af okkar hálfu. Þá gæti verið hyggilegt að horfa til viðskipta með gervigreind sem er vaxandi iðnaður á heimsvísu. Við höfum ekki tekið þátt í því kapphlaupi að neinu ráði.“