Ísland að tapa samkeppnisforskoti í gagnaversiðnaði
Í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag er rætt við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hugverkasviðs SI, sem segir að fjarað hafi undan samkeppnishæfni gagnavera, sem teljast til minni stórnotenda, frá árinu 2018. „Ísland er að tapa samkeppnisforskoti sínu í þessum iðnaði og það er tvennt sem skiptir mestu máli í þeim efnum: Annars vegar raforkuverðið og hins vegar gagnatengingar. Við fáum skýr svör frá okkar félagsmönnum um að raforkuverð sé ekki samkeppnishæft og að betri kjör bjóðist annars staðar. Þetta birtist meðal annars í þeirri ákvörðun Advania Data Centers að byggja frekar nýtt gagnaver í Svíþjóð en hér á landi.“
Blikur á lofti varðandi frekari uppbyggingu gagnaversiðnaðar hér á landi
Hún segir að raforkuverð hjá framleiðandanum sé eitt en síðan séu það flutnings- og dreifikostnaður sem leggist ofan á verðið. „Þegar fyrirtæki tekur ákvörðun um uppbyggingu á gagnaveri er horft til heildarverðsins auk annarra þátta.“ Hún segir að horfa þurfi til virðiskeðjunnar í heild sinni, umræðan eigi ekki að snúast um einstakt fyrirtæki og arðsemi þess heldur um arðsemi þjóðarbúsins. Þá skipti máli að byggja upp öflugan og samkeppnishæfan iðnað. „Gagnaversiðnaðurinn er sá iðnaður sem er að vaxa hvað hraðast á heimsvísu. Það er vaxandi eftirspurn eftir vinnslu og hýsingu gagna, og hún mun fyrirsjáanlega aukast mjög mikið. Gagnaversiðnaðurinn byggðist upp tiltölulega hratt hér á landi en það eru blikur á lofti varðandi framhaldið. Spurningin er hvort Ísland ætli að vera þátttakandi í þessari þróun á heimsvísu. Þá skiptir máli að við höldum rétt á spilunum svo við missum ekki alveg úr höndunum það samkeppnisforskot sem við höfðum á sínum tíma.“
Fréttablaðið, 19. febrúar 2020.