Fréttasafn



18. okt. 2018 Almennar fréttir

Ísland áfram í 24. sæti í samkeppnishæfni

World Economic Forum hefur birt nýja skýrslu um samkeppnishæfni þjóða. Í skýrslunni kemur fram að Ísland er í 24. sæti af 140 löndum sem mæld eru og er þar með í sama sæti og í síðustu mælingu. Í fimm efstu sætunum á listanum eru Bandaríkin, Singapore, Þýskaland, Sviss og Japan. Það ber nokkuð á milli Íslands og hinna Norðurlandanna en Svíþjóð er í 9. sæti, Danmörk er í 10. sæti, Finnland er í 11. sæti og Noregur er í 16. sæti. 

Þegar horft er til einstakra mælinga þá kemur í ljós að Ísland stendur best í stöðugleika er varðar hagkerfið og mælist þar í 1. sæti en mælikvarðinn er bundinn við verðbólgu og skuldastöðu. Þegar horft er til heilsutengdra málefna mælist Ísland í 10. sæti og þegar horft er til hæfni vinnuaflsins er Ísland í 9. sæti. Hvað innviði snertir þá er Ísland í 37. sæti en fellur töluvert niður þegar horft er til gæða vega og mælist þá í 63. sæti og í 81. sæti þegar horft er til þess hvernig vegir tengjast. Þegar horft er til fjármálakerfisins mælist Ísland í 36. sæti. Í getu til nýsköpunar er Ísland í 23. sæti á listanum. Í mælikvarða á byrgði reglna hins opinbera mælist Ísland í 29. sæti. Ísland er neðarlega á listanum þegar horft er til stærðar markaðar og er þar í 131. sæti listans. 

Á vef World Economic Forum er hægt að nálgast skýrsluna The Global Competitiveness Report 2018. Samantektin um Ísland er á bls. 275. 

WEF-mynd-2018