Fréttasafn  • Samtok_idnadarins_-_Borgartun_35

16. ágú. 2016 Almennar fréttir Nýsköpun

Ísland aftur í 13. sæti í nýsköpun

 

Nýsköpunarmælikvarðinn Global Innovation Index 2016 hefur verið birtur og kemur í ljós að Ísland er í 13. sæti yfir þau ríki sem standa fremst í nýsköpun. Á toppnum trónir Sviss sem einnig var í fyrsta sæti á síðasta ári. Svíþjóð er í 2. sæti og hefur færst upp um eitt sæti. Bretland datt niður í 3. sætið en var í 2. sæti fyrir ári síðan. Bandaríkin eru í 4. sæti og fóru upp um eitt sæti. Finnland er í 5. sæti og fór upp um eitt sæti. Danmörk færðist upp um tvö sæti og er nú í 8. sæti. Noregur hefur hins vegar dottið niður um tvö sæti og er nú í 22. sæti listans. Engin breyting varð á stöðu Íslands á listanum því fyrir ári síðan var Ísland einnig í 13. sæti. Það þykir tíðindum sæta að Kína hefur nú komist inn á topp 25 listann en var í 29. sæti fyrir ári síðan. Yemen vermir síðasta sætið með lægsta skorið af rúmlega 100 löndum. 

Þetta er níunda skiptið sem listinn er tekinn saman en að framkvæmdinni standa Cornell University, INSEAD og World Intellectual Property Organization (WIPO).

Markmið SI er að Ísland sé í fremstu röð þegar kemur að nýsköpun og einn af mælikvörðunum væri að ná því markmiði að Ísland verði orðið meðal fimm efstu landa í Global Innovation Index árið 2020. Það er enn nokkuð í land að ná því markmiði en betur má ef duga skal. Starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi hefur færst nær því að vera alþjóðlega samkeppnishæft með nýlegum lagabreytingum fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki og þarf að halda áfram á þeirri braut ef markmiðið um topp fimm á að nást.  

Frekari upplýsingar um Global Innovation Index 2016:

http://www.wipo.int/pressroom/en/articles/2016/article_0008.html