Fréttasafn15. júl. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök gagnavera Starfsumhverfi

Ísland ekki lengur samkeppnishæft í raforkuverði

Stór hluti af þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir núna, er hins vegar að Ísland er ekki lengur samkeppnishæft þegar kemur að raforkuverði, en sú staða er grafalvarleg, sérstaklega í ljósi hægari umsvifa í öðrum útflutningsgreinum. Þetta segir Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera, í Markaðnum. Hann segir að hagstætt og fyrirsjáanlegt raforkuverð hafi í gegnum tíðina verið einn af stóru þáttunum sem hafi skapað íslenskum gagnaverum það samkeppnisforskot sem hafi skilað þeim á þann stað sem þau eru í dag, en til viðbótar við aðgengi að hreinni orku þurfi þau einnig góðar nettengingar og aðgengi að frábæru starfsfólki. Öll þessi atriði þurfi ætíð að vera samkeppnishæf við það sem best gerist erlendis. 

Jóhann segir í fréttinni að útflutningstekjur gagnavera hafi numið 12 milljörðum króna árið 2018 og að uppbygging atvinnugreinarinnar hafi ekki krafist meiriháttar fjárfestinga eða aðstoðar af hálfu ríkisins. Hann segir að til viðbótar við lægra orkuverð erlendis, sé mikill munur á kostnaði við flutning og dreifingu á raforku á Íslandi, samanborið til dæmis við Noreg og Svíþjóð, sem leiðir til þess að heildarorkukostnaður verði umtalsvert lægri í þessum löndum samanborið við Ísland. Þá áformar Landsnet fjárfestingu upp á tugi milljarða í flutningskerfi sínu í tengslum við kerfisáætlun til að bæta raforkuöryggi, en það getur orðið til þess að raforkuverð til stórnotenda hækki umtalsvert á næstu árum. „Fyrir liggur í áætlunum Landsnets að þetta getur valdið töluverðum hækkunum á dreifikostnaði stórnotenda. Að okkar mati þurfa ákvarðanir um fjárfestingar í flutningskerfi að byggja á samkeppnishæfni orkumarkaðarins og orkufrekra fyrirtækja. Þær mega ekki byggja einungis á sjónarmiðum um raforkuöryggi og hag orkuframleiðenda.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 15. júlí 2020.