Ísland er háskattaland og skattar sífellt meira íþyngjandi
„Ísland er háskattaland. Skatttekjur hins opinbera hér eru með þeim hæstu í heiminum, þar sem um 40% af verðmætasköpun hagkerfisins rennur til stjórnvalda í formi skatta og gjalda,“ sagði Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasvið SI, í frétt Morgunblaðsins um hækkun gjalda á nýjar íbúðir í Reykjavík.
Hækkun skatta og gjalda takmarkar aðgengi ungs fólks inn á fasteignamarkað enn frekar
Jóhanna Klara segir jafnframt í fréttinni: „Eitt af því sem vert er að skoða er hversu mikið ungt fólk greiðir í skatta og gjöld, sérstaklega þegar það kaupir sína fyrstu íbúð og hvernig sú þróun hefur verið. Gjaldtaka í tengslum við fasteignaviðskipti er orðin verulegur hluti af þeim kostnaði sem ungt fólk stendur frammi fyrir. Þessi sífellt hækkandi gjaldtaka hefur áhrif á húsnæðisverð og takmarkar þannig aðgengi ungs fólks að því að komast inn á fasteignamarkaðinn enn frekar. Auk þess hefur þessi þróun áhrif á framboð á nýjum íbúðum. Þegar gatnagerðargjöld, byggingarréttargjöld og önnur gjöld sem leggjast á uppbyggingu hækka hratt, hægir það á byggingaframboði og gerir þróun nýrra hverfa dýrari. Það hækkar fasteignaverð, sem leiðir af sér verri stöðu á húsnæðismarkaði fyrir alla kaupendur, sérstaklega fyrstu kaupendur.“
Skammsýni að leggja mikinn kostnað á komandi kynslóðir kaupenda
Þegar Jóhanna Klara er spurð hvort aukin umsvif ríkisins þrýsti á tekjuöflun í formi skattheimtu svarar hún: „Já, sérstaklega nú þegar hið opinbera er rekið með halla og stefnt er að því að snúa honum í afgang.“ Þá kemur fram í fréttinni að hún segi það óheillaþróun og skammsýni að leggja svo mikinn kostnað á komandi kynslóðir kaupenda. „Ef stefnan er að byggja upp íbúðir fyrir ungt fólk, þá gengur þessi aukna gjaldtaka þvert á þau markmið enda hækkar byggingarkostnaður umtalsvert á nýbyggingum við þetta. Endurskoða þarf þessa hugmyndafræði alvarlega. Verið er að hækka gjöld og leggja á ný gjöld til að fjármagna innviði sem allt samfélagið nýtir, ekki bara þeir sem kaupa nýbyggingar – og ekki bara þessi eina kynslóð sem þarf að komast inn á húsnæðismarkaðinn um þessar mundir. Það er einnig umhugsunarvert að kaupendur íbúða, á svæðum þar sem innheimt hafa verið innviðagjöld eða byggingarréttargjöld, hafa í raun engar skýrar leiðir til að krefjast efnda varðandi þá innviði sem þeir eiga réttmæta kröfu til.“
Morgunblaðið, 21. febrúar 2025.