Fréttasafn19. okt. 2020 Almennar fréttir Framleiðsla Nýsköpun

Ísland í þriðja sæti með frostþurrkaðar skyrflögur

Ísland hreppti þriðja sætið í Ecotrophelia, evrópskri matvæla-nýsköpunarkeppni háskólanema, sem fór fram í gær. Vegna COVID-19 fór keppnin að þessu sinni fram með rafrænum hætti. Alls voru 13 Evrópuþjóðir sem tóku þátt í keppninni og var lið Íslands, sem kom frá Háskóla Íslands, skipað Anítu Þórunni Þráinsdóttur og Guðrúnu Ölfu Einarsdóttur. Framlag þeirra var Frosti skyr sem eru frostþurrkaðar skyrflögur, hágæða íslenskt próteinduft.

Frosti skyr vakti mikinn áhuga dómara keppninnar og hafnaði Ísland í þriðja sæti sem er besti árangur Íslands í keppninni til þessa. Þess má geta að Frosti skyr hlaut einnig þriðju verðlaun í íslensku frumkvöðlakeppninni Gulleggið síðastliðinn föstudag. 

Samtök iðnaðarins standa að baki keppninni hér á landi, ásamt Nýsköpunarmiðstöð og Matís. Markmið með Ecotrophelia-keppninni er að stuðla að þróun nýrra umhverfisvænna matvara fyrir íslenskan og alþjóðlegan markað, ásamt því að auka umhverfisvitund og þjálfa frumkvöðlahugsun nemenda. Samtök iðnaðarins eiga sæti í stjórn Ecotrophelia í Evrópu og skipuðu einn af dómurum keppninnar sem er Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóri á framleiðslusviði SI.

Á myndinni hér fyrir ofan eru þær Guðrún Alfa Einarsdóttir og Aníta Þórunn Þráinsdóttir. 

Á vef Ecotrophelia er hægt að lesa nánar um þátttakendur í keppninni.

Á Youtube er hægt að horfa á keppnina:

https://www.youtube.com/watch?v=MGgFi_pLAYQ

IMG_4802-2-002-

IMG_4806

IMG_4812-2