Fréttasafn



27. ágú. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Ísland komist á kortið í gervigreindarkapphlaupinu

Í forsíðufrétt ViðskiptaMoggans segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, að Ísland verði einfaldlega að komast á kortið í gervigreindarkapphlaupinu. Mikil tækifæri séu til staðar sem þurfi að grípa og Samtök iðnaðarins eigi í virku og uppbyggilegu samtali við stjórnvöld um þessi mál, ljóst sé að tíminn sé knappur enda séu stóru fyrirtækin vel á veg komin með að kortleggja sína uppbyggingu til framtíðar. 

Gervigreindin orðinn lykilþáttur í alþjóðlegri samkeppnishæfni

Sigríður segir í ViðskiptaMogganum að gervigreindin og þá sérstaklega uppbygging innviða hennar sé orðin lykilþáttur í alþjóðlegri samkeppnishæfni. Stórveldi heimsins, Bandaríkin, Kína og Evrópusambandið, keppist nú öll um forystu í þróun, vinnslu og hagnýtingu hennar. Hún segir Ísland þurfa að kappkosta að auka viðskipti og tengsl við Bandaríkin á þessu sviði, ekki síst vegna stöðu tollamála og það sé einnig brýnt þjóðaröryggismál. „Ísland býr yfir sérstöðu sem getur reynst dýrmæt í gervigreindarkapphlaupinu. Græn orka og loftslagsvænir innviðir landsins skapa einstakt tækifæri til að sinna innviðaþörfum gervigreindar, með auknum umsvifum í gagnaversiðnaði, en gagnaver gegna lykilhlutverki í þessari byltingu.“ 

Stjórnvöld þurfa að taka að sér leiðandi hlutverk og sýni pólitískt hugrekki

Í fréttinni kemur fram að þrátt fyrir stöðu Íslands þar sem kalt loftslag og græn orka skapi hagstæð skilyrði, hafi hindranir á sviði stjórnsýslu, regluverks og raforkuframboðs komið í veg fyrir stórar fjárfestingar. Erlendir fjárfestar hafi sýnt mikinn áhuga, en skortur á skýrri framtíðarsýn og flókið regluverk hafi hindrað stærri uppbyggingu hingað til. Í fréttinni kemur fram að Sigríður leggi áherslu á að stjórnvöld þurfi að taka sér leiðandi hlutverk varðandi gervigreind og tengda innviði, stíga þurfi stór skref og það hratt til þess að tryggja að Ísland verði virkur þátttakandi í þessari iðnbyltingu, en dragist ekki aftur úr öðrum löndum. Skýra framtíðarsýn og pólitískt hugrekki þurfi til þess að Ísland marki sér stöðu á þessu sviði. 

ViðskiptaMogginn / mbl.is, 27. ágúst 2025. 

VidskiptaMogginn-28-08-2025