Ísland taki forystu í umhverfis- og loftslagsmálum
Fjölmörg íslensk fyrirtæki hafa þegar hafið þá vegferð að draga úr losun og nýta grænar lausnir í sinni starfsemi. Raunar má segja að Ísland gangi á undan með góðu fordæmi með margra áratuga reynslu af nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa til húshitunar og í raforkuvinnslu. Það setur Ísland í öfundsverða stöðu nú þegar þjóðir heims keppast við að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hjá sér. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein þeirra Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, og Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA, sem birt er í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni Ísland taki forystu í umhverfis- og loftslagsmálum.
Þeir segja að Ísland sé enginn eftirbátur nú þegar þjóðir heims hafi tekið höndum saman um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Metnaðarfull markmið hafi verið sett þar sem stefnt sé að því að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Þá segja þeir að sú aukna áhersla sem orðin er á umhverfis- og loftslagsmál hafi áhrif á samkeppnishæfni ríkja þar sem horft sé í meira mæli til þeirra sem standi sig vel á þessu sviði og verðmætasköpun geti jafnvel aukist í kjölfar jákvæðrar ímyndar.
Fagna samstarfsvettvangi atvinnulífs og stjórnvalda
Í greininni segja þeir það vera fagnaðarefni að stofnaður hafi verið samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Vettvanginum sé ætlað að bæta árangur Íslands í umhverfis- og loftslagsmálum og miðla fjölbreyttu framlagi landsins á þessu sviði. Þeir segja atvinnulífið vilja leggja sitt af mörkum og þar sé mikill áhugi og vilji til að gera enn meira og enn betur. Samstarf atvinnulífs og stjórnvalda sé lykilforsenda þess að við náum þeim árangri sem að sé stefnt. „Ef Ísland tekur forystu og leggur sitt lóð á vogarskálarnar í umhverfis- og loftslagmálum mun það án efa verða mikill ávinningur, ekki einungis fyrir okkur sem byggjum landið heldur fyrir heimsbyggðina alla.“
Hér er hægt að lesa grein Sigurðar og Halldórs Benjamíns í heild sinni.