Fréttasafn



15. sep. 2025 Almennar fréttir Menntun

Ísland vann bronsverðlaun á EuroSkills

Gunnar Guðmundsson, keppandi í iðnaðarrafmagni, vann til bronsverðlauna í sinni keppnisgrein á EuroSkills 2025 sem fram fór í Herning í Danmörku. Verðlaunaafhending og lokahátíð keppninnar fór fram um helgina. Gunnar hlaut 719 stig í keppninni. Annar varð Martin Riegler frá Austurríki með 721 stig en Philip Svensson frá Svíþjóð hlaut gullverðlaun með 737 stig. Í dag tekur Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, á móti íslensku keppendunum á Bessastöðum.

Tvær viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur

Tveir íslenskir keppendur hlutu auk þess „medal of excellence“ fyrir framúrskarandi árangur. Það voru Andrés Björgvinsson fyrir matreiðslu og Daniel Francisco Ferreira, sem keppti í húsarafmagni. Andrés varð níundi í matreiðslu en Daniel fimmti.

Þúsundir aðstandenda og annarra áhorfenda hylltu verðlaunahafa í keppnishöllinni Boxen í Herning en til gamans má geta að þar leikur danska landsliðið í handknattleik heimaleiki sína. Gríðarleg stemmning var í höllinni enda vel staðið að allri skipulagningu mótsins.

Rúmlega 100 þúsund gestir á EuroSkills

Keppt var í 38 iðn- og verkgreinum á EuroSkills að þessu sinni en Íslendingar áttu fulltrúa í þrettán greinum. Að auki tóku fjórtán sérfræðingar þátt fyrir hönd Íslands en það eru þjálfarar keppenda sem jafnframt gegna hlutverki dómara í keppninni. Alls taldi hópurinn 41 einstakling.

Keppnisdagarnir voru þrír, miðvikudagur, fimmtudagur og föstudagur, en keppendur höfðu undirbúið sig vikum og mánuðum saman í aðdraganda mótsins. Alls lögðu 103 þúsund gestir leið sína á EuroSkills.

Sigur í sjálfu sér að komast á EuroSkills

Poul Nyrup Rasmussen, formaður stjórnar keppninnar og fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, sagði í ávarpi sínu við upphaf verðlaunaafhendingarinnar að allir keppendur væru sigurvegarar. Það væri sigur í sjálfu sér að ná þeim árangri að komast á EuroSkills og taka þátt í keppninni.

546159089_1233832595450781_7193483585222056160_nGunnar Guðmundsson, keppandi í iðnaðarrafmagni, hlaut bronsverðlaun.

545934751_1233831272117580_1168692871772251218_n

547262660_1233832042117503_2343484390195819020_n

547436143_1233831372117570_4693485235889707889_n

547536719_1233831175450923_6382649342532850292_n

548047741_1233831675450873_3755477495061059845_n

548879299_1233831795450861_6995715892466979299_n

549150579_1233831518784222_5652547403408439876_n

Martin Riegler frá Austurríki, Philip Svensson frá Svíþjóð og Gunnar Guðmundsson frá Íslandi.