Fréttasafn8. júl. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Umhverfis og orkumál

Ísland verði fyrirmynd annarra í umhverfis- og loftslagsmálum

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, var í viðtali hjá Kristjáni Kristjánssyni í Sprengisandi á Bylgjunni þar sem þeir ræddu um umhverfis- og lofstlagsmál. Þar segir Sigurður að það sé ekki bara atvinnulífið sem eigi að vera í fararbroddi heldur eigi Ísland að vera fyrirmynd annarra ríkja í þessum málum og hann segir að við höfum allt sem þarf til. „Þetta byrjaði á því að þjóðir heims hafa tekið höndum saman um það að gera eitthvað í þessum málum. Þetta er hnattrænn vandi sem þýðir það að þetta skiptir máli út um allan heim en ekki bara í hverju landi fyrir sig. Ísland er enginn eftirbátur þarna. Við höfum auðvitað undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar. Við viljum leggja okkar af mörkum og við höfum gert heilmikið til að ná árangri á þessu sviði. Ríkisstjórnin hefur til dæmis sett markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 sem að er mjög metnaðarfullt. Svo snýst þetta auðvitað líka um samkeppnishæfni ríkja. Í meira mæli verður horft til þess hvernig ríki og fyrirtæki standa sig í þessum málum. Þannig að ef við verðum eftirbátur mun það bitna á okkur en á móti ef við stöndum okkur vel þá getum við notið þess vegna þess að þetta kemur inn á ímynd landsins.“

Allir hagnast á því ef ímynd Íslands er sterk

Sigurður segir í viðtalinu að með því að efla ímynd Íslands þá aukum við eftirspurn eftir því sem að héðan kemur hvort sem það er náttúran sjálf, fyrir ferðamenn eða vörur. „Það getur verið fiskurinn eða vörur eða þjónusta sem við erum að gera hér. Sem þýðir að með aukinni eftirspurn að þá auðvitað fáum við hærra verð, þannig að við fáum aukin verðmæti. Aukin verðmæti mun þýða að það verður meira til skiptann fyrir okkur öll þannig að við högnumst öll á því að ímyndin sé sem sterkust.“

Vilji stórnvalda skýr og mikill áhugi í atvinnulífinu

Sigurður segir að áhugi stjórnvalda á loftslagsmálunum sé auðvitað heilmikill. „Hann birtist í fyrsta lagi í stjórnarsáttmálanum þar sem eru skýr markmið um aðgerðir á þessu sviði og kolefnishlutleysi 2040. Við sjáum það að á Viðskiptaþingi árið 2018 í ræðu forsætisráðherra þá varpar hún fram þessari spurningu Hver vill ekki selja fisk frá kolefnishlutlausu landi? og er þannig að vísa í ímyndina. Hvernig ímyndin getur aukið eftirspurn og aukið verðmætasköpun. Og svo sjáum við það í haust, í september 2018, þegar stjórnvöld leggja fram aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem er í fyrsta sinn sem slík aðgerðaráætlun er lögð fram og fjármögnuð. Þannig að vilji stjórnvalda er skýr. Þannig að atvinnulífið tók þessu sem mikilli hvatningu og fór til stjórnvalda og lagði til að við færum í samstarf á þessu sviði. Áhugi atvinnulífsins er auðvitað heilmikill. Við sjáum það hvernig Ísland hefur þegar náð árangri til dæmis með því hvernig við erum að nýta endurnýjanlega orkugjafa. Fyrstu og önnur orkuskiptin gengu akkúrat út á þetta, að nýta vatnsaflið í raforkuframleiðslu og að nýta jarðvarmann til þess að hita upp húsin. Lykilatriðið er að þetta er efnahagslega sjálfbært. Við gerðum þetta af því að þetta var hagkvæmt fyrir okkur. Það er auðvitað vandinn. Önnur ríki eru í allt annarri stöðu. Þau þurfa kannski að finna dýrari lausnir hjá sér til þess að ná sínum markmiðum. Fara út í þróunarkostnað á öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum, sólarorku, vindorku og svo framvegi. Þannig að okkar sérstaða felst auðvitað í þessu að hafa náð árangri á efnahagslega sjálfbæran hátt. Þannig getum við orðið fyrirmynd annarra og náð ennþá meiri árangri. Við sjáum það að atvinnulífið hefur náð góðum árangri en það er mikill metnaður og vilji til að ná enn betra og lengra.“

Fyrirtækin setja sér markmið

Sigurður segir mörg fyrirtæki hafi sett sér einhver markmið í þessum efnum og hvernig þau ætla að bregðast við. „Það er auðvitað misjafnt hvernig þau ætla að gera það, sum með mótvægisaðgerðum sem getur falist í endurheimtu votlendi eða rækta upp skóga. Það getur líka verið að breyta framleiðluferlum og draga þannig úr losun í framleiðslunni. Aðgerðaráætlun stjórnvalda byggir á því og gengur mikið út á þriðji orkuskiptin svokölluðu sem eru orkuskipti í samgöngum sem þýðir að bílar verða þá knúnir með raforku eða öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta eru dæmi um það sem við getum gert. Síðan er það auðvitað nýsköpun sem að ekki bara getur skapað aukin verðmæti og breikkað flóru atvinnulífsins heldur leysir auðvitað samfélagsleg viðfangsefni og þetta er eitt af þeim.“

Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.