Ísland vísar Evrópu veginn í jarðvarma
Ísland hefur vísað Evrópu veginn þegar kemur að nýtingu jarðvarma og getur Evrópusambandið lært margt af Íslendingum. Þetta kom fram í ávarpi Dan Jørgensen, framkvæmdastjóra orku- og húsnæðismála í framkvæmdastjórn ESB á árlega viðburðinum Our Climate Future sem Íslandsstofa og Grænvangur stóðu fyrir í Brussel í gær ásamt sendiráði Íslands í Brussel. Í tilkynningu kemur fram að þar hafi verið rúmlega 150 sérfræðingar, stjórnendur og stefnumótunaraðilar og að viðburðurinn hafi verið haldinn undir yfirskriftinni „Jarðvarmi sem drifkraftur fyrir samkeppnishæfni, kolefnishlutleysi og orkuöryggi Evrópu“ (e. Geothermal Energy as a Driver for European Competitiveness, Decarbonisation and Energy Security).
Í ávarpi Jørgensen kom m.a. fram að jarðvarmi væri vannýttur orkukostur í Evrópu en að Ísland hefði vísað Evrópu veginn þegar kemur að nýtingu hans. Hann lagði áherslu á að Evrópusambandið hefði margt að læra af Íslendingum. „Jarðvarmi getur verið hornsteinn fyrir Evrópu framtíðarinnar þegar það kemur að hreinni orku,“ sagði Jørgensen og benti á að jarðvarmi væri staðbundin orka sem áföll heimsins hafa engin áhrif á.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ávarpaði einnig fundinn og sagði að það væri sama hvort að þær ógnanir sem þjóðir stæðu frammi fyrir væru náttúruvá eða ófriður, alltaf væri nauðsynlegt að tryggja orkuöryggi með stöðugum, staðbundnum og endurnýjanlegum orkukostum eins og jarðvarma. Hann áréttaði að Evrópa stæði frammi fyrir miklu tækifæri í nýtingu jarðvarma til húshitunar.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og formaður Grænvangs flutti lokaorð þar sem hann sagði að dagurinn hefði ekki bara verið um stöðu jarðvarma á Íslandi heldur ekki síður um framtíð jarðvarma í Evrópu. „Ísland er tilbúið til samstarfs – ekki bara sem fyrirmynd, heldur sem samstarfsaðili í vegferð Evrópu að hreinni orku. Jarðvarmabyltingin snýst ekki aðeins um tækni, hún snýst um seiglu, sjáfbærni og sameiginlega velferð,“ sagði Sigurður.
Dan Jørgensen, framkvæmdastjóri orku- og húsnæðismála í framkvæmdastjórn ESB, Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Brussel.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Dan Jørgensen, framkvæmdastjóri orku- og húsnæðismála í framkvæmdastjórn ESB.
Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, Tómas Sigurðsson, forstjóri HS Orku, Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix og Davide Amato hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.