Fréttasafn25. nóv. 2022 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Íslandi taki þátt með meira afgerandi hætti í COP næsta árs

Fulltrúar Samtaka iðnaðarins, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, og Lárus M.K. Ólafsson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI og sérfræðingur SI í orku- og umhverfismálum, voru gestir á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun í umræðu um Aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP 27. 

COP meira en formlegar samningaviðræður

Þar ræddu fulltrúar SI meðal annars um reynslu og lærdóm af COP 27. Kom m.a. fram í máli þeirra á fundinum að COP snúist um mun meira en formlegar samningaviðræður enda sé COP vettvangur ríkja, fyrirtækja og stofnana til þess að kynna lausnir og aðgerðaráætlanir og deila reynslu um nýsköpun, orkuskipti og fjárfestingar sem eru grunnurinn að því að ná árangri í loftslagsmálum. Hvöttu fulltrúar SI meðal annars til þess á fundinum í morgun að Ísland - stjórnvöld, fyrirtæki, stofnanir og samtök - taki þátt með meira afgerandi hætti í COP á næsta ári þar sem í því fælust mikil tækifæri.

Hætta á að Ísland dragist aftur úr öðrum ríkjum 

Nefndu fulltrúar SI að samvinna stjórnvalda og atvinnulífs í mörgum ríkjum hafi verið sérstaklega áberandi á COP 27. Einnig hafi markmið ríkja um útfösun jarðefnaeldsneytis verið áherslumál ásamt fjölbreyttri grænni orkuframleiðslu. Á fundinum í morgun ræddu fulltrúar SI einnig mikilvægi aukinnar orkuöflunar á Íslandi, m.a. vegna orkuskipta og að hætta væri á að Ísland dragist aftur úr öðrum ríkjum vegna stöðu orkumála í dag. Hefjast þurfi handa strax við að tryggja orkuframboð fyrir þriðju orkuskiptin hér á landi.

Hér er hægt að nálgast glærur sem fulltrúar SI voru með á fundinum.