Fréttasafn



4. okt. 2016 Iðnaður og hugverk

Íslandsmótið í málmsuðu framundan

Íslandsmótið í málmsuðu verður haldið dagana 7. og 15. október. Þetta er í 23. skiptið sem keppnin er haldin en nú er keppnin haldin í fyrsta skipti á þremur stöðum á landinu. Þann 7. október verður keppnin í húsnæði Launafls á Reyðarfirði og í Verkmenntaskólanum á Akureyri og 15. október verður keppnin í húsnæði Iðunnar fræðsluseturs í Vatnagörðum í Reykjavík.

Keppt er í fjórum suðugreinum; pinnasuðu PF og PC svart, MAG-suðu PF svart, logsuðu PF og TIG-suðu ryðfrítt H-L045. Hægt er að taka þátt í einni eða fleiri greinum en Íslandsmeistari í málmsuðu verður sá sem keppt hefur í öllum fjórum greinum og hlotið flest stig úr þeim samanlögðum.

Tilgangur keppninnar er að auka metnað og virðingu fyrir málmsuðu á Íslandi. Vegleg verðlaun eru veitt fyrir þrjú fyrstu sætin í keppninni. Hægt er að skrá sig í keppnina á heimasíðu Málmsuðufélags Íslands, www.malmsuda.is.

Málmsuðudagurinn 14. október

Málmsuðudagurinn verður haldinn föstudaginn 14. október. Iðan fræðslusetur og Málmsuðufélag Íslands bjóða á Málmsuðudaginn í húsnæði Iðunnar fræðsluseturs að Vatnagörðum 20.

Dagskrá:

10.00 – 11.00 Claus Pagh, sölustjóri Migatronic Automation. Sjálfvirknivæðing í málmiðnaði/málmsuðu.

11.00 – 12.00 Gerry McCarthy Beng, MSc, Ceng, MIEI, MweldI. Gæðakerfi fyrir minni málmiðnaðarfyrirtæki EN 3834. Nokkur orð um Welding Coordinator.

13.00 – 14.00 Dr. Cécile MAYER, frkst. IIW, International Institute of Welding. Hvað eru IIW samtökin og hvaða gagn er af því að vera meðlimur í þeim?           

Opið hús kl. 13.00 – 18.00

Flestir stærstu birgjar landsins á málmsuðuvörum sýna vörur á svæðinu frá kl. 13.00 – 18.00. Fyrirtækin verða einnig með kynningar á nýjungum í suðuvélum og sýna suðutækni. Sérstök áhersla er lögð á sjálfvirkni við málmsuðu og til sýnis verður „CoWelder“  suðuþjarki (robot).