Fréttasafn



18. maí 2018 Almennar fréttir

Íslendingar geta lært af Finnum

Finnland er góð fyrirmynd. Með markvissri stefnumótun og skýrri sýn hafa Finnar náð miklum árangri á undanförnum áratugum. Með því að vinna markvisst að því að fjölga stoðum atvinnulífsins og þar með skapa aukin verðmæti hafa Finnar komist í fremstu röð. Íslendingar geta sannarlega lært af Finnum. Þetta kemur fram í grein Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í Fréttablaðinu þar sem hann segir frá viðburði sem haldinn var í vikunni í tengslum við opinbera heimsókn íslensku forsetahjónanna til Finnlands. Það voru Samtök iðnaðarins ásamt finnskum systursamtökum sem stóðu fyrir viðburðinum í Helsinki þar sem íslensk og finnsk líf- og heilbrigðistæknifyrirtæki kynntu starfsemi sína og ræddu tækifærin sem framtíðin felur í sér að viðstöddum forseta Íslands. 

Í grein Sigurðar kemur einnig fram að með fjórðu iðnbyltingunni opnist nýir möguleikar til þess að bæta líf okkar í gegnum líf- og heilbrigðistækni og að Ísland eigi að taka þátt í þeirri þróun eins og önnur ríki. „Með fjárfestingu í rannsóknum og þróun á þessu sviði og skilvirku umhverfi nýsköpunar verða til mikil verðmæti sem stuðla ekki einungis að betra lífi fólks með nýjum lausnum heldur að aukinni verðmætasköpun sem skilar sér í auknum lífsgæðum.“ 

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.