Fréttasafn13. jún. 2019

Íslensk hönnun og húsgagnaframleiðsla

Á síðustu árum hefur vegur íslenskrar hönnunar og húsgagnaframleiðslu vaxið að nýju. Fjölmargir hönnuðir og framleiðendur hafa í gegnum tíðina komið fram með nýstárleg húsgögn sem hafa notið mikilla
vinsælda. Í mörgum tilvikum er um að ræða húsgögn sem öðlast hafa ákveðinn sess hjá landsmönnum. Þetta kemur meðal annars fram í bæklingi sem gefinn var út í tilefni þess að íslensk húsgögn voru formlega afhent síðastliðinn föstudag en Samtök iðnaðarins hafa haft frumkvæði að því að íslensk húsgögn prýða nú suðurstofu Bessastaða í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands þar sem gestum gefst kostur á að sjá íslenska hönnun og handbragð íslenskrar framleiðslu stillt upp á fallegan hátt. Íva Rut Viðarsdóttir, innanhússarkitekt, valdi húsgögnin að þessu sinni og skipulagði rýmið í suðurstofunni.

Í bæklingnum segir jafnframt að íslensk húsgagnaframleiðsla hafi verið í miklum blóma á tímabilinu 1950-1975 eða allt þar til innflutningur húsgagna var gefinn frjáls og enn leynist víða húsgögn frá þeim tíma. Á þessum árum einkenndist íslenskur húsgagnaiðnaður af mörgum smáum fyrirtækjum en á árinu 1972 voru hátt í 300 fyrirtæki starfandi í þeim iðnaði. Húsgagna- og innanhússarkitektar stofnuðu með sér samtök árið 1955 til að auka útflutning framleiðslu sinnar og taka þátt í sýningum erlendis. Stofnendur voru einungis átta en félagsmönnum fjölgaði hratt og voru þeir orðnir hátt í 90 um aldamótin. Um tíma streymdu erlend húsgögn á markaðinn og dró þá verulega úr allri framleiðslu hér á landi.

Þá segir að framsækni hafi einkennt hönnun og framleiðslu íslenskra húsgagna þegar nýr efniviður hefur verið notaður, nýstárleg form, ný áklæði eða húsgögnin mótað á nýjan hátt. Það getur verið langur vegur frá fyrstu hugmynd og teikningu hönnuðar og þar til húsgagnið hefur verið smíðað. En þegar handverk og hönnun fara vel saman tekst oft að skapa ný viðmið sem geta haft áhrif á margar kynslóðir. Mikilvægur áfangi í sögu íslenskrar húsgagnahönnunar og húsgagnasmíði er innsetning íslenskra húsgagna í suðurstofu Bessastaða. Á Bessastöðum eru húsgögn sem koma víða frá og mörg húsgagnanna eiga sér langa sögu, jafnvel sögu sem talin er í árhundruðum. En einnig er þar að finna nýrri smíði og má þar meðal annars nefna hillur í bókhlöðu Bessastaða hannaðar af Sveini Kjarval og smíðaðar hér á landi. Við val á húsgögnum í suðurstofu Bessastaða var haft í huga að blandað væri saman samtímahönnun og eldri hönnun til að sýna þá miklu fjölbreytni sem einkennir íslensk húsgögn.

Hér er hægt að nálgast PDF af bæklingnum.

SI_islensk-husgogn_BessastadirSI_islensk-husgogn_Bessastadir-3

SI_islensk-husgogn_Bessastadir-2

SI_islensk-husgogn_Bessastadir-4

SI_islensk-husgogn_Bessastadir-5

SI_islensk-husgogn_Bessastadir-6SI_islensk-husgogn_Bessastadir-7SI_islensk-husgogn_Bessastadir-8