Fréttasafn



28. jún. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Íslensk húsgögn og hönnun í öllum opinberum byggingum

Það ætti að vera sjálfsagt mál að íslensk húsgögn og hönnun sjáist í öllum opinberum byggingum, ekki síst þar sem almenningur og erlendir gestir fara um í einhverjum mæli. Vinna þarf markvisst að því að gera íslenska hönnun og framleiðslu sýnilegri. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Mannlífi undir yfirskriftinni Ræktum orðspor Íslands

Sigurður segir að nýta ætti hvert tækifæri til þess að auka veg íslenskrar framleiðslu og hönnunar og rækta þannig orðspor Íslands með tilheyrandi verðmætasköpun. Einstök hönnun og vönduð framleiðsla geti eflt ímynd Íslands og aukið eftirspurn á því sem frá okkur kemur. Nú þegar íslensk húsgögn og hönnun prýði suðurstofu Bessastaða að frumkvæði Samtaka iðnaðarins sé ástæða til að hvetja hið opinbera til að horfa í meira mæli til þess sem er hannað eða framleitt hér á landi. Af hverjum 100 krónum sem eytt er í íslenska hagkerfinu eyði hið opinbera hvorki meira né minna en 40 krónum. Það segi sig sjálft að val hins opinbera í innkaupum hafi því óhjákvæmilega mikið að segja og geti haft jákvæð áhrif á uppbyggingu einstakra atvinnugreina.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Sigurður að Samtök iðnaðarins hvetji til þess að íslenskt verði fyrir valinu en með því ræktum við orðspor Íslands um leið og við styrkjum efnahag landsins. Með jákvæðri ímynd getum við náð forskoti í samkeppninni við aðrar þjóðir og skapað enn meiri verðmæti hér á landi. Það gagnist öllum landsmönnum og því sé til mikils að vinna. 

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.