Fréttasafn



15. ágú. 2025 Almennar fréttir Menntun

Íslensk menntatækni í þágu skólaþróunar

Samtök menntatæknifyrirtækja kynntu íslenskar lausnir sem styðja við vinnuumhverfi kennara og efla nám nemenda á skólaþróunarráðstefnu sem bar yfirskriftina Skóli margbreytileikans: Leiðir og verkfæri til vaxtar sem fór fram í Stekkjaskóla á Selfossi í gær 14. ágúst. Fulltrúi SI, Hulda Birna Kærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, tók þátt í undirbúningi kynninga með Samtökum menntatæknifyrirtækja og sat ráðstefnuna. 

Á ráðstefnunni var sjónum beint að því hvernig menntatækni getur létt undir með kennurum, bætt vinnuumhverfi og styrkt faglegt starf í skólum. Fulltrúar íslenskra menntatæknifyrirtækja kynntu fjölbreyttar lausnir sem stuðla að auknum gæðum náms, skilvirkari vinnubrögðum og betra aðgengi að námi fyrir alla nemendur.

Hagrænar lausnir en flókið regluumhverfi

Í erindunum kom meðal annars fram að íslenskar menntalausnir sem standast persónuverndarkröfur á evrópskum mörkuðum þurfa að fara í gegnum dýrar og tímafrekar úttektir fyrir hvert og eitt sveitarfélag á Íslandi. Þetta skapar hindranir fyrir innleiðingu nýsköpunar í skólakerfið og dregur úr möguleikum kennara til að nýta öflug verkfæri sem þegar eru til staðar.

Lausnir sem bæta skólastarf

Á ráðstefnunni voru kynntar eftirfarandi íslenskar lausnir:

  • Askurinn – gæðastýrt námsumsjónarkerfi með yfir 2.000 verkefnum sem stytta undirbúningstíma og draga úr álagi kennara.

  • InfoMentor – öflugt námsumsjónarkerfi með fjölbreyttum lausnum fyrir skólastarf.

  • Undralingur – stafrænar, lifandi lestrarbækur sem efla lestrarfærni með þátttöku og leik.

  • Læsir – einfalt skráningarforrit fyrir heimalestur sem veitir yfirsýn og hvetur nemendur.

  • Beenfee – hvatningarkerfi sem styður við jákvæða hegðun og eykur námsáhuga.

  • Atlas Primer – lausn sem stuðlar að öruggri og ábyrgu námsumhverfi sem byggist á samræðum við gervigreind sem miðlar námsefni sem hljóði, eins konar gervigreindur einkakennari, 

  • Tiro – sjálfvirk talgreining sem umbreytir íslensku talmáli í texta, m.a. fyrir skjölun og aðgengi.

  • Tvík – stafrænt íslenskunám fyrir nýja íbúa með 3 mánaða námsleiðum og samtalsþjálfun.

  • Evolytes – leikjamiðað stærðfræðinámsefni með rauntímagögnum og mælanlegum árangri.

  • Baratala –íslenskunám, sérsniðið að þörfum atvinnulífsins og innflytjenda, orðaforði, gagnvirkt forrit.

  • Meta Geta – innra mats kerfi sem styður við skólaþróun með mælaborðum og umbótaáætlunum.

Tækni sem sparar tíma og styrkir faglegt starf

Í erindunum kom meðal annars fram að áhersla væri lögð á að menntatækni geti létt álagi af kennurum, veitt betri yfirsýn yfir námsframvindu, boðið upp á öflug matstæki og aukið aðgengi nemenda, foreldra, skólayfirvalda og stjórnvalda að upplýsingum um nám. Einnig kom fram að brýnt sé að skýra reglur og samræma verklag sveitarfélaga um persónuvernd og innleiðingu nýrra lausna í skólakerfið. Lausnirnar eru til en spurt var eftir hverju væri verið að bíða. Hagsmunir barna okkar væru í húfi og tækifæri til vaxtar.

Hulda Birna segir að menntatækni sé ört vaxandi grein innan íslensks hugverkaiðnaðar og skapi tækifæri til nýsköpunar og útflutnings. Samtök iðnaðarins leggi áherslu á að skapa hagstætt og samræmt regluumhverfi þar sem íslensk menntatækni geti vaxið og eflt menntakerfið með hagkvæmum og snjöllum lausnum. Hún segir að slík samvinna sé lykilforsenda þess að Ísland standi jafnfætis þeim fremstu í menntun og nýsköpun.

Processed-07EADD09-7274-4504-A83D-CC7439410A7D

532109042_10229520859821388_7716288362122232833_n

Original-84E7475E-0A59-4AE6-ABB2-0B6CB898D7EE

Original-DFFA5CF5-4306-4618-82D6-C6A62F32F194

Processed-7A3E3712-184B-448D-AAC6-E62B15A99BA3

Processed-7FD05891-4E16-4A9F-9A82-C3BA966A4728


Processed-0551AFDC-ABAC-4EB7-9E5B-EE80F4B81FBD
Processed-E79BBC5F-9E7C-493A-9905-F617F48438A8

Processed-54F919CF-F76E-4470-871C-1AA23EB04418