Fréttasafn



26. okt. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Íslensk smalabaka keppti í Frakklandi

Íslensk smalabaka, Volcanic, var framlag Íslands í ár í evrópsku matvæla-nýsköpunarkeppninni, Ecotrophelia, sem var haldin í París 16.-17. október. Markmið með keppninni, sem hefur verið haldin árlega frá árinu 2011, er að stuðla að þróun nýrra vistvænna matvæla. Frá upphafi hefur Íslands átt fulltrúa í keppninni og í ár voru það nemendur í matvælafræði og umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands sem tóku átt. 

Alls voru 15 þjóðir sem öttu saman nýjum og vistvænum matvælum í keppninni en Serbar báru sigur úr bítum með snarlvöru sem gerð er úr glútenfríu heilkorni, rauðrófuafgöngum og engiferi. 

Þrátt fyrir að íslenska smalabakan hafi ekki unnið til verðlauna þá kitlaði hún sannarlega bragðlauka dómnefndar og var af mörgum talin það bragðbesta sem borið var á borð. Bakan samanstendur af linsubaunum og grænmetisfyllingu sem toppað er með kartöflumús. Þau Kayla Þorbjörnsson, Kristófer Ásmundsson og Zaw Myo Win, sem skipuðu íslenska liðið, stefna hraðbyri að markaðssetningu á smalabökunni og bætist þar við góða flóru íslenskra grænmetisrétta.

Samtök iðnaðarins standa að baki keppninni hér á landi ásamt Matís. Ecothrophelia Europe er skipulögð af viðskiptaráði Vaucluse héraðs í Frakklandi með stuðningi samtaka matvælaiðnaðar í Frakklandi og annars staðar í Evrópu, þar á meðal Samtaka iðnaðarins á Íslandi. Aðrir stuðningsaðilar eru ýmsir opinberir aðilar í Frakklandi og stórfyrirtækin Nestlé World og Campden BRI í Bretlandi.

Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, situr fyrir hönd Samtaka iðnaðarins í stjórn Ecotrophelia í Evrópu og var meðal dómara í keppninni. 

Á myndinni hér fyrir ofan eru þátttakendur í keppninni í ár ásamt dómurum. 

Kayla-og-Zaw-MyoZaw Myo Win og Kayla Þorbjörnsson kynna framlag Íslands í keppninni, smalabakan Volcanic.

Serbneska-snarlidSigurvegari keppninnar var snarlvara sem er gerð úr glútenfríu heilkorni, rauðrófuafgöngum og engiferi.