Íslensk stjórnvöld horfi bæði til austurs og vesturs
„Það er búið að boða það að tollar verði lagðir á Evrópusambandið, ESB, og þegar það var gert 2018 hafði það líka áhrif hér á landi, m.a. á málma sem framleiddir eru hér,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins og vísar þar til kísiljárns. Í fréttinni kemur fram að hætta sé á því, að mati SI, að útflutningsvörur frá Íslandi verði tollaðar í Bandaríkjunum, komi til tollastríðs á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Sigurður segir að útfærslan af hálfu Bandaríkjanna liggi ekki fyrir en menn hafi séð það áður að tollar sem beinast að ESB hafi einnig beinst að Íslandi. „Ég held að íslensk stjórnvöld verði að horfa bæði til austurs og vesturs og koma sjónarmiðum Íslands að gagnvart Bandaríkjunum á réttum tímapunkti og eins þurfum við að fylgjast með þróun mála í Evrópu. Staðan í Noregi skiptir líka máli, Norðmenn eru í sömu stöðu og við, innan EES en utan ESB.“
Skiptir öllu máli að hafa greiðan aðgang að alþjóðlegum mörkuðum
Sigurður bendir á í fréttinni að verðmæti útflutnings iðnaðarvara til Bandaríkjanna hafi numið 40 milljörðum og fiskútflutnings á milli 40 og 50 milljörðum árið 2023. Í fréttinni segir að einnig þurfi að fylgjast með þróun mála í Evrópu og hvernig ríki þar myndu bregðast við í tollastríði og viðbrögð þeirra gætu haft áhrif hér. „Maður hefði haldið að þetta væru vörur sem Bandaríkjamenn vildu ekki vera án. Þetta er risa mál því að okkar lífskjör byggjast á verðmætasköpun og útflutningi, þannig að það skiptir öllu máli fyrir okkur að hafa greiðan aðgang að alþjóðlegum mörkuðum.“
Morgunblaðið, 5. febrúar 2025.