Fréttasafn



11. okt. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Íslenskar arkitektastofur taka þátt í undirskriftum vegna loftslagsvá

Íslensku arkitektarstofurnar ARKÍS arkitektar, ASK arkitektar, Basalt, Hornsteinar, Landslag, Studio Arnhildur Pálmadóttir, T.ARK, THG arkitektar, Teiknistofan Tröð og VA arkitektar hafa skrifað undir skuldbindingu um að taka mið af loftslagsvánni í sinni starfsemi undir #architectsdeclare. SAMARK hvetur  félagsmenn sína til að taka þátt og skrifa undir. 

Á íslenska hluta vefsíðunnar Architectsdeclare kemur fram að loftslagsvá og eyðing vistkerfa séu alvarlegustu viðfangsefni okkar tíma. Byggingar og framkvæmdir leiki þar stórt hlutverk; þær valdi um 40% kolefnislosunar (CO2) og hafa auk þess umtalsverð áhrif á náttúruleg vistkerfi. Á vef Dezeen er umfjöllun um þátttöku breskra arkitektastofa.

Í skuldbindingunni kemur fram að til að mæta þörfum samfélags okkar án þess að ganga á vistkerfi jarðar þurfum við að breyta hugmyndafræði þeirra sem starfa í byggingariðnaði. Í samstarfi við verkkaupa okkar, þurfum við að hanna byggingar, borgir og innviði sem mynda órjúfanlegan hluta stærra kerfis sjálfbærni og stöðugrar endurnýjunar. Okkur skortir hvorki rannsóknirnar né tækni til að hefjast handa, aðeins sameiginlegan vilja til verka. Við gerum okkur grein fyrir þessu og skuldbindum okkur því til að styrkja starfsemi okkar á þann hátt að við sköpum arkitektúr og byggðamynstur sem hefur jákvæð áhrif á umhverfi okkar.

Á vefsíðunni skuldbinda arkitektastofurnar sig til þess að leitast við að:

  • auka meðvitund um loftslagsvá og eyðingu vistkerfa og hina knýjandi þörf fyrir aðgerðir meðal verkkaupa okkar og birgja;
  • hvetja til hraðari þróunar í byggingariðnaði og aukins opinbers stuðnings í átt að sjálfbærni í hönnun og framkvæmdum;
  • fagleg velgengni okkar verði mæld í því hversu vel okkur tekst að koma á viðmiðum til að sporna við hverskyns umhverfisvá , til að mynda með viðurkenningum, verðlaunum og opinberum birtingum;
  • tryggja opið aðgengi að þekkingu og rannsóknum okkar;
  • meta öll ný verkefni með hliðsjón af því að draga úr áhrifum mannsins á loftslag og vistkerfi og hvetja verkkaupa okkar til hins sama;
  • að endurnýjun eldri bygginga verði skoðuð sem raunhæfur, vistvænn kostur á móti niðurrifi og nýbyggingu þar sem því verður við komið;
  • nýta lífsferils kostnaðargreiningar, líftíma kolefnisgreiningar og mat á byggingum í notkun með það að markmiði að draga úr auðlindanotkun, við byggingu og rekstur mannvirkja;
  • taka upp sjálfbær hönnunarviðmið í starfsemi okkar með það að markmiði að skapa arkitektúr og byggðamynstur sem gengur lengra en lágmarksviðmið um kolefnishlutleysi;
  • vinna með öðrum ráðgjöfum, verkkaupum og verktökum að því að minnka úrgang frá byggingariðnaði;.
  • hraða því að byggingarefni með lítið kolefnisinnihald frá framleiðslu og flutningi verði nýtt í okkar verkefnum;
  • lágmarka sóun auðlinda í arkitektúr og skipulagi, jafnt á stórum sem smáum mælikvarða.