Fréttasafn20. jún. 2019 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Íslenski raforkumarkaðurinn til umræðu í Færeyjum

Vinnuhúsið í Færeyjum, systursamtök Samtaka iðnaðarins, héldu fyrr í vikunni málþing í Þórshöfn um raforkumarkað en á vegum samtakanna er nú unnið að því að greina kosti og galla þess að taka þarlendan raforkumarkað til endurskoðunar. Á meðal frummælenda á málþinginu var Lárus M. K. Ólafsson, viðskiptastjóri á framleiðslusviði SI, sem fór yfir breytingar sem gerðar hafa verið á hérlendum markaði og reynslu af þeirri breytingu. Málþingið var vel sótt og á meðal gesta voru fulltrúar atvinnulífs og þingmenn færeyska þingsins.  

Þrátt fyrir stærðarmun á íslenskum og færeyskum raforkumörkuðum er margt sem þessi lönd eiga sameiginlegt, s.s. að um er að ræða einangraða markaði ótengda öðrum kerfum og þar eru orkufyrirtæki sem stærðar sinnar vegna eru í markaðsráðandi stöðu. Mikill áhugi var á meðal fundargesta um íslenska raforkumarkaðinn og hvaða lærdóm megi draga af þeim breytingum sem hér hafa verið innleiddar, en margar spurningar voru bornar upp á fundinum og að honum loknum. Fulltrúar færeyska þingsins hafa óskað eftir frekari upplýsingum frá SI um þessi mál. Ljóst er að Færeyingar munu líta til Íslands þegar kemur að breytingum á raforkumarkaði.

Faereyjar-juni-2019Lárus M. K. Ólafsson, viðskiptastjóri á framleiðslusviði SI, var meðal frummælenda á þinginu í Færeyjum.