Fréttasafn



16. mar. 2016 Iðnaður og hugverk

Íslenskir húsgagnaframleiðendur og gullsmiðir á HönnunarMars

 Íslenskir húsgagnaframleiðendur sýndu nýjungar í framleiðslu á glæsilegri sýningu í Hafnarhúsinu í s.l. viku. Sýningin fór fram dagana 10. til 13. mars í tengslum við Hönnunarmars en húsgagnaframleiðendurnir tóku jafnframt þátt í að styrkja stórskemmtilega opnunarhátíð Hönnunarmars. Sýningarstjórn og hönnun sýningarinnar var í höndum Theresu Himmer og grafíska hönnun annaðist Snæfríð Þorsteinsdóttir. 

Sýnendur í ár voru sjö talsins, AGUSTAV, Axis, Á. Guðmundsson, G.Á. húsgögn, Sólóhúsgögn, Syrusson og Zenus. Fyrirtækin eru öll í Félagi húsgagna- og innréttingaframleiðenda sem starfar innan raða Samtaka iðnaðarins og voru samtökin jafnframt bakhjarl sýningarinnar. 

Samstarf íslenskra húsgagnaframleiðenda við hönnuði hefur um árabil verið árangursríkt eins og sjá mátti á þeim nýjungum sem voru kynntar í ár. 

Félag íslenskra gullsmiða setti einnig upp sýningu í Hafnarhúsinu þar sem gullsmiðir í félaginu sýndu gripi og settu upp vinnustofu þar sem gestir gátu fylgst með þeim að störfum.

Mikill fjöldi gesta lagði leið sína í safnið um helgina og eftirtektarvert að áhugi manna á íslenskum húsgögnum og handverki vex stöðugt. 

Hér má sjá umfjöllun um sýninguna í Kastljósi.

Kastljósið var einnig við opnunina, hér má sjá umfjöllun.