Fréttasafn26. sep. 2018 Almennar fréttir Menntun

Íslenskir iðnnemar keppa í Búdapest

Átta iðnnemar frá Íslandi eru að keppa í EuroSkills, evrópukeppni iðn- og verkgreina í Búdapest. Keppnin hófst í dag og stendur til 28. september. Íslensku keppendurnir keppa í trésmíði, grafískri miðlun, málmsuðu, rafvirkjun, rafeindavirkjun, bakstri, framreiðslu og matreiðslu. Undirbúningur hefur staðið yfir síðan í vor og hafa keppendur verið undir handleiðslu þjálfara sem fór með þeim á mótið.

Verkiðn - Skills Iceland er aðili að EuroSkills og hefur verið þátttakandi á vettvangi samtakanna og systursamtakanna WorldSkills frá árinu 2007. Í ár er fjöldi þátttakenda sá mesti sem verið hefur á EuroSkills.
„Á EuroSkills eru nemar í iðnnámi að koma fram fyrir Íslands hönd og keppa í sínum iðngreinum. Keppendum gefst þarna einstakt tækifæri til að bera sig saman við kollega sína um alla Evrópu og kynnast því að standa á stóra sviðinu. Markmiðið er ekki endilega að koma heim með verðlaunapening heldur mikið frekar að vera sér og sinni iðngrein til sóma. Koma heim með dýrmæta reynslu í farteskinu til að ná enn lengra í faginu,“ segir Georg Páll Skúlason, formaður Verkiðnar.

Á myndunum má sjá íslensku keppendurnir ásamt formanni Verkiðnar og liðsstjóra.

Hægt er að fylgjast með íslensku keppendunum á Facebook og Instagram/https://www.instagram.com/idngreinarislands


Euroskills2018_2
Euroskills_2018_logo-002-