Fréttasafn



22. feb. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Íslenskt álfarartæki afhjúpað á Nýsköpunarmóti Álklasans

Nýsköpunarmót Álklasans verður haldið á morgun 23. febrúar kl. 14.00-16.00 í hátíðarsal Háskóla Íslands. Tilgangur mótsins er að kynna árangur af rannsókna- og þróunarverkefnum og ræða hugmyndir að samstarfsverkefnum sem fela í sér tækifæri til framþróunar og verðmætasköpunar í Álklasanum. Fundarstjóri er Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar hjá Samtökum iðnaðarins.

Nýsköpunarmótið hefst með framsöguerindum fulltrúa Álklasans, háskólasamfélagsins og atvinnulífsins. „Nýsköpun verður ekki til í tómarúmi,“ er yfirskrift erindis Péturs Blöndals, framkvæmdastjóra Samáls. Hilmar Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ, ræðir um „Hugvit og ál“. „Munar um hugvit í álveri – í alvöru?“ er yfirskrift erindis Jóns Ásgeirssonar, sem stýrir framþróun hjá ÍSAL. Gestur Pétursson, forstjóri Elkem á Íslandi, ræðir um umhverfismarkmið dagsins í dag sem hvata fyrir verðmætasköpun. Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri AMS (Aluminiumindustriens Miljøsekretariat), skýrir hlutverk rannsóknastofnunarinnar og loks fjallar Ari Arnórsson, verkefnastjóri Ísar, um „Áframvinnslu áls – íslenskar bílasmíðar“.

Í kaffihléi verður afhjúpað íslenskt álfarartæki. Eftir það fara fram örkynningar á verkefnum og hugmyndum sem lúta að rannsóknum og nýsköpun, en framsögumenn hafa þrjár mínútur til umræðu hver, auk þess sem gefin er mínúta til að svara stuttum fyrirspurnum.

Mótinu lýkur með því að Guðbjörg Óskarsdóttir, klasastjóri, opnar hugmyndagátt Álklasans með verkefnatillögum sem tengja saman háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki í Álklasanum. Boðið verður upp á léttar veitingar og gefst þátttakendum gott tækifæri til að ræða málin og skapa ný tengsl. 

Að Nýsköpunarmótinu standa Álklasinn, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Samál og Samtök iðnaðarins.

Skráning