Fréttasafn



6. nóv. 2025 Almennar fréttir Menntun

Íslensku menntaverðlaunin afhent á Bessastöðum

Íslensku menntaverðlaunin 2025 voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 4. nóvember. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum; fyrir framúrskarandi skóla- eða menntaumbótastarf, kennslu, þróunarverkefni, iðn- og verkmenntun, auk sérstakra hvatningarverðlauna.

Á vef RÚV er hægt að horfa á verðlaunaafhendinguna. 

Markmið verðlaunanna er að vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr. Verðlaunin ná til leik-, grunn- og frahaldsskólastigs, sem og til listnáms og félags- og tómstundastarfs.

Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur

Verðlaunin í ár fær Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar fyrir afar metnaðarfullt og árangursríkt starf. Markmið skólahljómsveitarinnar er að búa til vettvang fyrir börn með áhuga á tónlist til að vinna saman að tónlistarsköpun og tónlistarflutningi.

Árangur hljómsveitarinnar þykir einstakur. Hún hefur komið fram í sýningum í Borgarleikhúsinu, með Íslenska dansflokknum, á Myrkum músíkdögum, í sjónvarpi, á fjölmörgum hljómleikum og við ýmsa viðburði, auk þess að heimsækja dvalarheimili aldraðra, svo fátt eitt sé nefnt. Síðustu ár hefur hátt hlutfall nemenda í hljómsveitinni haldið áfram tónlistarnámi. 

Framúrskarandi kennari

Örvar Rafn Hlíðda l, íþróttakennari við Flóaskóla, fær verðlaunin fyrir framúrskarandi íþróttakennslu og árangur í starfi.

Örvar Rafn þykir einstaklega laginn við að ná til allra nemenda, eða eins og þetta var orðað í einni af umsögnunum þar sem mælt var með tilnefningu hans: Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða lítið vatnshrætt kríli sem þarf að hvetja og styðja til að taka fyrstu sundtökin eða hvort um ræðir öflugan ungling sem stundar íþróttir af kappi og þarf að hvetja til dáða …

Flóaskóli hefur undir leiðsögn Örvars tekið þátt í Skólahreysti undanfarin ár. Þó skólinn sé fámennur, hafa keppnislið skólans náð inn í úrslit ár eftir ár. Frá 2021 hefur skólinn tvisvar lent í þriðja sæti úrslitakeppninnar og tvisvar unnið keppnina.

Framúrskarandi þróunarverkefni

Verðlaunin fær verkefnið Lítil skref á leið til læsis , samstarfsverkefni leikskólans Grænuvalla og Borgarhólsskóla á Húsavík um málörvun og læsi.

Verkefnið beinist annars vegar að auknu samráði kennara á báðum stigum um að efla málþroska og læsi og hins vegar að öflugri foreldrafræðslu til að styrkja samstarf skóla og heimila.

Áhugaverður þáttur í verkefninu er aðkoma sjúkraþjálfara, sem hefur kannað fínhreyfingar barnanna og síðan hafa þau börn sem á þurfa að halda fengið markvissa þjálfun. Afurð verkefnisins verður leiðarvísir sem kennarar geta nýtt sem ramma eða kveikju fyrir hliðstæð verkefni og þar verður að finna hugmyndir um hvernig hægt er að vinna faglega að því að efla samstarf á mörkum skólastiga með aðkomu kennara, foreldra og barna.

Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun

Verðlaun fyrir framúrskarandi framlag til iðn- eða verkmenntunar koma í hlut Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum sem hefur á undanförnum árum markað sér sterka stöðu í kennslu málm- og vélstjórnargreina. Sérstaða námsins felst í því hvernig tekist hefur að umbreyta hefðbundnu námi í verkefnamiðað og atvinnulífstengt ferli þar sem nemendur vinna raunhæf verkefni sem endurspegla aðstæður í atvinnulífinu.

Í litlu samfélagi, þar sem sjávarútvegur og iðnaður eru lífæð byggðarinnar, hefur skólinn þróað námsumhverfi í samstarfi við atvinnulífið sem er í fremstu röð á landsvísu.

Hvatningarverðlaun

Hvatningarverðlaun fær starfsfólk Háaleitisskóla í Reykjanesbæ. Í skólanum eru sjö af hverjum tíu nemendum af erlendum uppruna og í skólanum eru töluð um 30 tungumál. Í Háleitisskóla hefur tekist að skapa einstaklega jákvæða skólamenningu, m.a. með því að líta á fjölmenninguna sem styrk skólans.

Félagsmiðstöð er opin í frímínútum og hádegi, þar er opið svokallað vellíðunarver sem styður nemendur sem þurfa stuðning og nemendur, sem á þurfa að halda, geta sótt sér aðstoð til sérstaks nemendaráðgjafa. Þá hefur mikil rækt verið lögð á samstarf við foreldra og að styðja þá við að setja sig inn í og skilja íslenskt skólakerfi.

Að menntaverðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Samtök iðnaðarins.

Mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið og Samtök iðnaðarins fjármagna verkefnið.

Hægt er að senda inn tillögur að tilnefningum fyrir næsta ár, sjá á www.skólaþróun.is þar sem einnig er að finna nánari upplýsingar um verðlaunahafa og tilnefningar.

Myndir/Mummi Lú

20251104-160730-MummiLuForseti Íslands, Halla Tómasdóttir.

20251104-160300-MummiLu

20251104-160612-MummiLu

20251104-161057-MummiLu

20251104-161310-MummiLuSkólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. 

20251104-161630-MummiLuGuðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra.

20251104-161752-MummiLuÖrvar Rafn Hlíðdal, íþróttakennari við Flóaskóla, hlaut viðurkenningu fyrir að vera framúrskarandi kennari.

20251104-161837-MummiLuEyjólfur Árnason, innviðaráðherra.

20251104-162021-MummiLuLítil skref á leið til læsis, samstarfsverkefni leikskólans Grænuvalla og Borgarhólsskóla á Húsavík um málörvun og læsi hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi þróunarverkefni. 

20251104-162208-MummiLuSigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

20251104-162300-MummiLuFramhaldsskólinn í Vestmannaeyjum hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi iðn- eða verkmenntun.

20251104-162411-MummiLuGuðfinna Bjarnadóttir.

20251104-162627-MummiLuHáaleitisskóli í Reykjanesbæ hlaut hvatningarverðlaun.

20251104-163955-MummiLu_1762421897064