Íþyngjandi regluverk leiðir til dvínandi samkeppnishæfni
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI og formaður ráðgjafanefndar EFTA, tók þátt í umræðum á opnum fundi utanríkisráðuneytisins og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um þróun innri markaðarins og EES-samningurinn í breyttum heimi. Frummælendur á fundinum voru Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og höfundur nýlegrar skýrslu um framtíð innri markaðarins, og Line Eldring, formaður nefndar sem nýlega skilaði skýrslu um reynslu Noregs af EES-samstarfinu.
Sigríður kom meðal annars inn á mikilvægi þess að íslenskt atvinnulíf og stjórnvöld taki höndum saman í hagsmunagæslu gagnvart regluverki ESB sem innleitt er í EES samninginn. Regluverkið þurfi að styðja við fjárfestingu í nýsköpun, stafrænum innviðum og uppbyggingu og fjárfestingu í atvinnugreinum með háa framleiðni. Íþyngjandi regluverk innan Evrópu hafi þegar leitt til dvínandi samkeppnishæfni álfunnar í samanburði við önnur efnahagssvæði og snúa þurfi þeirri þróun við.
Á vef Stjórnarráðsins er hægt að nálgast frekari upplýsingar um fundinn.