Fréttasafn



12. nóv. 2015 Mannvirki

Jafnvægi gæti skapast á íbúðamarkaði

 Íbúðum í byggingu fjölgar og framleitt magn verður í takti við þörf næstu ára. Enn er þó áskorun að mæta uppsafnaðri þörf á markaðnum.

  • Greining SI sýnir að framboð á nýju húsnæði á næstu þremur árum verði í takti við áætlaða þörf fyrir nýjar íbúðir á þessu árabili
  • Uppsafnaðri þörf síðustu ára hefur þó ekki verið mætt. Skorturinn setur þrýsting á verð

  • „Mikil nauðsyn á samhæfðum aðgerðum til að stytta framleiðslutíma“

  • Frá 2005 hefur ungu fólki (25-43 ára) sem býr hjá foreldrum sínum fjölgað um 60%

Greining Samtaka iðnaðarins sýnir að framboð á nýju húsnæði á næstu þremur árum verði í takti við áætlaða þörf fyrir nýjar íbúðir á þessu árabili. Jafnvel þó að framboð íbúða á höfuðborgarsvæðinu muni aukast á næstu árum hefur uppsafnaðri þörf fyrri ára ekki verið mætt. Sú þörf er sérstaklega í minna og ódýrara húsnæði. Þetta er meðal þess sem fram kemur í árlegri greiningu Samtaka iðnaðarins á íbúðamarkaði og greint var frá á fundi sem samtökin efndu til undir yfirskriftinni, Mætum þörfinni - Íbúðamarkaður í brennidepli, í morgun.

Þurfa að byggja 10.000 íbúðir á næstu þremur árum

SI hafa staðið að talningu á íbúðum í framleiðslu frá árinu 2007. Samtökin framkvæma talninguna tvisvar á ári og gefur hún góða mynd af stöðu nýbyggingamarkaðarins. Á árunum 2011-2014 nam uppsöfnuð þörf umfram framleiðslu um 2.500-3.000 íbúðum. Sé litið til loka tímabilsins 2015-2018  er útlit fyrir að framleiðsla verði komin í takt við þörf en hún þarf að vera um 10.000 íbúðir á þessu tímabili.

„Það er enn mikil áskorun að brúa bilið á íbúðamarkaði. Margt virðist að auki benda til þess að uppsöfnuð þörf umfram framleiðslu sé ekki síst í litlu og ódýru húsnæði. Það er brýnt að grípa til samhæfðra aðgerða til að stytta framleiðslutímann, auka sveigjanleika og hafa þannig jákvæð áhrif á framboð íbúða þar sem þörfin er mest,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI.

60% aukning þeirra sem búa heima hjá foreldrum 

Árið 2005 bjuggu 10% einstaklinga á aldrinum 25-34 ára, um 4.200 talsins, hjá foreldrum sínum samkvæmt rannsókn Capacent. Árið 2014 var hlutfallið komið í 14% eða um 6.700. Þetta er 60% aukning. Að sögn Bjarna Más Gylfasonar hagfræðings SI, sem var einn þeirra sem flutti erindi á fundinum, eru skortur á húsnæði og efnahagslegir þættir líklegustu skýringarnar á þessari þróun. „Ánægjan með að búa áfram hjá pabba og mömmu hefur varla aukist,“ bætti hann við. Einir stærstu fæðingaárgangar landsins séu fæddir á árunum 1989-1994, það fólk sé nú á þeim aldri þar sem það vill allajafna flytja úr foreldrahúsum. 

Bjarni bætti við að það væri þó ekki aðeins unga fólkið sem hefur nýjar þarfir fyrir húsnæði því þrátt fyrir umtalsverða fjölgun á næstu árum í hópi fyrstuíbúðakaupenda séu þarfir eldri kynslóða líka að breytast. „Margir af stærstu fæðingarárgöngum Íslendinga eru fæddir á árunum 1955-1965. Þörf þessa aldurshóps fyrir húsnæði er einnig fyrir minna húsnæði. Þetta eru foreldrar hins fjölmenna árgangs sem fæddur var undir lok níunda og byrjun tíunda áratugsins. Þá hafa aldraðir líka nýjar þarfir. Það er talið að það þurfi um 530 ný pláss á hjúkrunarheimilum en hvert slíkt pláss kostar álíka mikið og ný 80-90 fermetra íbúð.“

----------------------------------------

Árlega mæla Samtök iðnaðarins umfang framleiðslu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu með talningu. Íbúðir í framleiðslu er taldar eftir gerð húsnæðis (rað- og parhús, fjölbýli og sérbýli) og mat lagt á stöðu framkvæmda eftir staðli ÍST-51. Kortið  HÉR sýnir heildarmagn íbúðarhúsnæðis í framleiðslu eftir byggingarstigi, annars vegar „að fokheldu“ og hinsvegar „fokhelt og lengra komið“:

Glærur frá fundinum

Samhengi hlutanna
- hvað þarf að byggja mikið og hver er uppsöfnuð þörf?
Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI 

Er framtíðin björt?
- Sýn stúdenta á húsnæðismarkaðinn
Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs

Veruleikinn í dag og höfuðborgarsvæðið til 2018
Friðrik Ólafsson, forstöðumaður byggingasviðs SI
Jón Bjarni Gunnarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SI

Í átt að framförum
- fimm nauðsynleg skref til umbóta
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI